fimmtudagur, júní 09, 2005

Minn bindindissami hundur

Á leið heim úr göngutúrnum í gærkvöldi flaðraði Freyja fagnandi upp um nokkra menn sem stóðu fyrir utan fundarsal AA-samtakanna í Kópavogi. Þá rifjaðist upp fyrir mér að eitt sinn slapp hún úr höndunum á okkur þegar hún var hvolpur og hljóp yfir götuna. Ég rauk inn til að ná í harðfisk svo lokka mætti dýrið til okkar aftur en Gummi æddi af stað á eftir henni. Þegar ég kom út var Guðmundur að draga glaðlegan, gulan hvolp aftur til síns heima en þá hafði hún brugðið sér inn um opnar dyr og beint upp í fundarsal AA og var þar í góðu yfirlæti þegar Gummi kom aðvífandi. Blessaður bindindishundurinn hefur auðvitað verið að heilsa gömlum félögum.

1 Comments:

Blogger Svava said...

Spurningin er hvort einhverjum hafi ekki langað að fá sér í glas aftur eftir að Freyja var búin að reyna að flaðra hann upp til agna.

1:39 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home