Rúnki fór í réttirnar
Við hjónin brugðum okkur í Skeiðarétt á laugardaginn og undum glöð við rollujarm og frís í hrossum. Freyju leist ekki illa á sig heldur og við og við kom smalahundurinn upp í henni. Þá missti hún stjórn á sér andartak og gelti tryllingslega í örfáar sekúndur. Ung stúlka var þarna á sveimi með tvo litla hvolpa og ég missti að sjálfsögðu gersamlega stjórn á mér. Sat undir réttarveggnum í klukkutíma með yndislegan, silkimjúkan hvolp í fanginu. Seinna kom í ljós að þessir litlu gullmolar bjuggu í Skeiðháholti þar sem fór í kjötsúpu á eftir. Ég gat varla hugsað mér að sleppa kvikindunum og kjassaði þá allan daginn. Gummi brá sér á hestbak og fylgdi kindunum frá réttunum og niður í Skeiðháholt. Ég hélt að hann stæði ekki í lappirnar eftir þetta og yrði undirlagður í harðsperrum en það var öðru nær. Þvert á móti var hann hinn kátasti. Hins vegar er hann smitaður af hestabakteríunni og þráir heitast af öllu að eignast hest. Það verður fínt að hafa hann í garðinum þá þarf ekki að hafa áhyggjur af slætti.