Sektarkend kvenna
Konur eru snillingar í að verða sér úti um sektarkennd. Þegar börnin eru lítil höfum við sektarkennd yfir að setja þau á leikskóla. óttumst að við sinnum þeim ekki nóg, erum fullvissar um að við ofdekrum þau, teljum fullvíst að eitthvað sem við sögðum í gær hafi nú markað djúpt spor í viðkvæma sál barnsins og verði aldrei að eilífiu afmáð. Konur lesa Cosmopolitan og gleypa í sig greinar með fyrirsögnum eins og þessum: How to rekindle the flame in bedroom, How to keep your man satisfied, How to keep him from straying and so on and so forth. Eftir lesturinn erum við vissar um að það sé ekki bara á okkar valdi heldur heilög skylda okkar að gera hann hamingjusaman og halda lífi í hjónabandinu í fimmtíu ár eða svo. Síðan fáum við auðvitað sektarkennd yfir að sjá ekki fram úr þessu verkefni. Ég er sérfræðingur í sektarkennd og hef eins lengi eins og ég man verið þjökuð af sektarkennd yfir einhverju. Nýlega sættist ég á það með sjálfri mér að börnin mín væru bara bráðvel heppnuð þrátt fyrir allar mínar misþyrmingar og að ég ætlaði að treysta þeim til að spjara sig í lífinu. Ég er einnig komin að þeirri niðurstöðu að ef karlinn minn er ekki hamingjusamur með mér þá verður hann bara að eiga það við sjálfan sig því ég nenni ekki að sálgreina hann og byggja upp. Þar með hélt ég að ég væri laus við alla þessa þungu sektarbyrði sem ég hef borið daga og nætur árum saman. Mikið var ég nú miklu léttari í nokkra daga. En vitiði bara hvað stelpur? Nú er ég komin með sektarkennd yfir að ég sinni hundinum ekki nóg.