Vinaleg vörtumeðferð
Fyrir nokkrum vikum tók ég eftir tveimur eldrauðum nöbbum neðarlega á öðrum fótlegg mínum. Ég hélt að um einhvers konar bólur væri að ræða og reyndi að kreista einhvern viðbjóð út úr þeim en þeir reyndust grjótharðir og alls ekki fylltir með einhverri eftirgefanlegri fyllingu. Ég fann svo sem ekkert til og þótt nabbarnir ergðu mig í hvert skipti sem ég sá þá gleymdi ég þeim þess á milli. Fyrir tveimur dögum átti ég svo erindi í apótek og ákvað að sýna afgreiðslustúlkunni nabbana. Hún leit á dýrindið sem skreytti kálfana á mér rétt fyrir ofan ökkla og kvað upp þann dóm að um vörtur væri að ræða. Hún sagði þetta meira að segja óvenju illskeyttar vörtur sem best væri að bregðast við sem fyrst því þær væru bráðsmitandi og ættu til að hlaupa út um allan líkama ef ekkert yrði að gert. Úr varð að ég keypti rándýrt vörtugel og lagði til atlögu við nabbana strax og heim kom. Gelið reyndist þunnfljótandi og hafði lag á að leka út um allt hvernig sem reynt var að sporna við því. Samkvæmt leiðbeiningum má það ekki fara á heila húð því þar getur það valdið ertingu en nánast ómögulegt er að koma í veg fyrir að það gerist, a.m.k. hefur hvorki mér né manninum mínum tekist að koma í veg fyrir það. Þrátt fyrir þessa augljósu ókosti hef ég engu að síður borið gelið samaviskusamlega á nabbana eða vörturnar á hverju kvöldi í þrjá daga. Í hvert skipti sem ég opna túpuna hvarflar hugurinn til einu vörtumeðferðarinnar sem ég hef hlotið um ævina, að þessari undaskilinni, að sjálfsögðu. Þá var ég fimm ára og Magga systir sjö. Við vorum nýfluttar í Bólstaðarhlíðina og ég var með eina brúna, myndarlega vörtu á vísifingri og Magga með eina ekkert síður bústna á löngutöng. Alda Oddsdóttir æskuvinkona okkar sá vörturnar og lagði til þá læknisaðferð að binda ullarband um vörtufingurinn ganga með það í tvo daga og grafa síðan bandið á leyndum stað. Þetta gerðum við systur og fórum í öllu að fyrirmælum hinnar vitru konu (sem var sjö ára eins og Magga). Það var ákaflega hátíðleg og alvarleg stund þegar við stóðum sunnanundir vegg í Bólstaðarhlíðinni og grófum spottana okkar. Alda tilkynnti með dimmum grafarhreim í röddinni að nú myndu vörturnar detta af og við ekki fá aðrar fyrr en spottarnir kæmu upp á yfirborðið aftur. Þess vegna riði á að halda grafarstaðnum leyndum. Ég þarf áreiðanlega ekki að taka það fram að vörturnar hurfu og ég hef ekki fengið vörtur síðan fyrr en nú. Ég verð því að álykta að einhver hafi grafið upp spottann minn af tómri illkvittni. Hver sem ástæðan fyrir þessu vörtufári er nú þá var spottaaðferðin bæði hreinlegri og þægilegri til að losna við vörturnar en gelmeðferðin.