Ég hef alltaf verið viðkvæm, hrifnæm og fljót að sveiflast milli hláturs og gráturs. Það verður að segjast eins og er að oftast nær hef ég fremur talið þetta löst en kost. Mér var einnig kennt frá unga aldri að yfirvegun væri það sem skilaði okkur mannfólkinu mestu og þolinmæðin dyggð. Sá sem sveiflast á orskotstund frá gleði yfir í dýpstu sorg eins og ég veit hins vegar að ekkert er verra en að bíða og bestu útrásina færðu þegar og ef þú bregst við tilfinningum þínum strax.
Mamma las fyrir okkur á kvöldin þegar ég var barn og ég var alltaf fyrst til að skæla ef illa var komið fyrir söguhetjunni og eins var ég fljót að brosa þegar lánið lék við hana að nýju. Við systurnar fórum líka í Tjarnarbíó með mömmu að sjá Síðasta bæinn í dalnum. Þegar tröllið í myndinni velti þeim systkinum ofan í kistu sem flaug síðan með þau um geiminn var mér allri lokið. „Nú, getur ekkert bjargað þeim,“skrækti ég óhuggandi og fór síðan að hágráta. Allt fór auðvitað vel að lokum og ég tók gleði mína um það leyti sem endirinn nálgaðist og tröllið fékk makleg málagjöld.
Fimmtán ára gömul sá ég Fantasíu Disney’s og grét þegar flóðhestarnir stigu lipran ballett undir tónum Blómavalsins eftir Tjsakovskí. Mér fannst tónlistin svo óendanlega falleg og eitthvað svo dásamlegt að sjá þessi stóru þungu dýr tipla um og dansa meira af vilja en mætti. Mér fannst það segja eitthvað stórkostlegt um sigur andans yfir efninu. Að sjálfsögðu var það hin versta skömm að láta það sjást að manni hefði vöknað um augu og það undir teiknimynd svo ég gerði mitt besta til að fela andlitið í úlpuhettunni á leiðinni út. Og þetta var í fyrsta en ekki síðasta skipti sem ég laumaðist þannig út úr bíóhúsum. Gumma fannst nóg um þegar hann gekk með okkur Andra, bæði útgrátin, út úr Laugarásbíó eftir að fjölskyldan fór og sá ET.
Eftir því sem ég eldist hef ég reynt að hemja þessa hlið skapgerðar minnar en af og til berast bækur inn á borð hjá mér eða bíómyndir sem opna allar flóðgáttir. Þar á meðal má nefna A Million Little Pieces sem nú er lesin í bókaklúbbi Opruh Winfrey, Barn að eilífu og nýjasta dæmið er Myndin af pabba. Ég losaði mig við þónokkra lítra af saltvatni við lestur þessara bóka og sat lengi eftir með tilfinningar sem erfitt var að fá útrás fyrir. Það er því sama hvernig ég reyni að hemja viðkvæmnina á sínum bás hún brýst alltaf út að lokum. Já, viðkvæmnin er vandkind.
Nýlega komst ég að þeirri niðurstöðu að kannski væri bara best að lofa viðkvæmniskindinni að hlaupa óbeislaðri og óhaminni um allar jarðir. Þetta er einfaldlega hluti af mér og hví ekki að bera höfuðið hátt og vera hreykin af því að það er minnsta kosti hægt að hræra mann til meðaumkunar. Hér eftir hef ég ákveðið að bera höfuðið stolt og reyna ekkert að leyna merkjum um tárin í hvert skipti sem þetta meyra nær yfirhöndinni innra með mér. Hinn kosturinn er harkan og tilfinningaleysið og þannig vil ég ekki vera.