Snyrtipinnar að handan og draugadurtar
Ég hef verið að lesa fyrir próf í allan dag. Nú á ég bara eftir að lýsa Suðurlandi og þar með hef ég lokið áfanganum SVÆ 106 í Leiðsöguskólanum. Ég hef því þulið alls konar draugavísur og hrakfallasögur yfir Guðmundi það sem af er degi og vesalingurinn orðinn alvarlega þunglyndur. Honum til hugarhægðar sagði ég því sögurnar af einu snyrtipinnunum í draugastétt sem þekkjast á Íslandi. Annar er auðvitað hvítklædda konan sem hinn drykkfelldi breski konsúll sá svífa um ganga og sali Höfða hér í Reykjavík en hinn var danskur assistent Reykjavíkurkaupmanns. Sá taldi það eitt helsta og besta tómstundagaman á vetrarkvöldum á þessu guðsvolaða landi að staupa sig örlítið úr brennivínstunnum kaupmannsins. Þar sem það var ekki vel séð hjá húsbóndanum fór hann að minnsta kosti einn brennivínstúr á ári hverju og gisti þá Kolviðarhól og drakk meðan tunnan entist. Af þessu hafði sá danski mikla skemmtun. Eftir að hann lést áttu tveir menn leið yfir Hellisheiði og komu að Kolviðarhóli. Heyrðu þeir þá söng og háreysti mikla á efri hæðinni og fóru upp til gá hverju það sætti. Sáu þeir þá mann með sítt parrukk og í rauðum dönskum jakka sitja þar með brennvínskút sér við hlið og syngja. Af og til fyllti hann á tinstaup sitt úr kútnum og meðan mennirnir horfðu teygði hann fram fótinn og skoðaði fallegu dönsku leðurskóna sína. Þeir stigu upp á pallinn og ætluðu að ganga að manninum en þá stóð hann upp og hvarf í eldglæringum. Einu snyrtilegu draugarnir á Íslandi voru því báðir af erlendum uppruna. Íslenskir draugar eru hins vegar upp til hópa illa til fara og hinir verstu viðureignar. Ríða þeir húsum, skrækja og láta öllum illum látum. Við þurfum greinilega að fara að koma okkur upp dannaðra draugaslekti að erlendri fyrirmynd.