mánudagur, nóvember 29, 2004

Jólahundur

Í gærkvöldi gengum við Freyja um hverfið í góða veðrinu. Alls staðar höfðu iðnir eiginmenn komið fyrir jólaljósum í gluggum, garðhýsum, trjám og runnum. Tíkinni fannst þetta fín tilbreyting í hversdagslífið og varð yfir sig hrifin af grænum, gulum, rauðum og bláum ljósum í runnunum og vildi troða sér inn í þá til að þefa af þessum skrautlegu kúlum. Hún stoppaði og horfði undrandi á upplýstan plastjólasvein í garði og var greinilega alveg á sömu skoðun og ég, nefnilega að þetta væri hin versta smekkleysa. Rétt áður en við komum heim hittum við pínulítinn svartan hvolp. Alveg óhugnanlega sætan. Freyju fannst hann æðislegur en litli vitleysingurinn var hálfhræddur við hana. Í morgun var hins vegar annað upp á teningnum. Glærasvell var yfir öllu og um leið og við stigum út úr heimkeyrslunni runnum við stjórnlaust niður götuna. Tíkin reyndi eftir bestu getu að stöðva sig með klónum en tókst það ekki. Allar fjórar lappirnar runnu hver í sína áttina og ég þakkaði mínum sæla að þurfa þó ekki að reyna að hafa stjórn á nema tveimur fótum. Við stauluðumst niður á göngustíginn okkar eftir margar mjög mismunandi álappalegar fellur og hálffellur. Þar tók ekki betra við, enda allt niður í móti og sumt ógurlega bratt. Ég hélt mig sem mest á grasinu í stígkantinum en varð í staðinn að þola árekstra við runna sem sumir hverjir stungu allóþyrmilega. Eftir að hafa runnið í rúmar tuttugu mínútur þvers og kruss um Kópavoginn snerum við Freyja heim á leið. Með miklu harðfylgi tókst okkur að komast upp brekkurnar og heim. Ég vona að ekki verði framhald á þessari færð.