Gott er að eiga góða að
Á laugardagskvöldið var ég í fimmtugsafmæli hjá frænku minni og flutti þar ræðu til að hylla hana. Meðal þess sem ég gat um var atvik úr æsku minni sem er þess virði að því sé flaggað hér.
Sama sumar tókst Svövu enn að bæta um betur þegar hún átti þátt í að bjarga lífi mínu og segja má að hún og Einar, bróðir hennar, séu samábyrg fyrir að ég stend hér heil og ósködduð. Þannig bar til einhvern tíma um mitt sumar að nokkur hópur fjár var tekinn heim á Refstað til sumarrúnings. Kindunum var hleypt út þegar þær voru lausar við reyfið og síðan átti að freista þess að láta lömbin renna saman við ærnar hægt og hægt. Okkur Svövu var falið það hlutverk að mynda mannlegan skjöld milli ánna og lambanna og áttum við að sjá til þess að engin lömb kæmust fram hjá okkur of snemma. Ég gleymdi mér auðvitað við að horfa á köngurló spinna vef sinn á fjárhúsveggnum og kindur og lömb því komin í eina óleysanlega bendu áður en hendi var veifað.
Ég var rifin upp úr dagdraumum mínum þegar Svava öskraði: „Hlauptu Steingerður! Hlauptu.“ Um leið fannst mér eins og allt dytti í dúnalogn og jarmið í lömbunum þagnaði. Ég leit upp sá ég hvar Þórður, frændi minn, kom æðandi í áttina til mín sótrauður í framan af bræði. „Ég ætla að drepa þennan krakka.“ Grenjaði hann og í minningunni rótaði hann upp jarðveginum með öðrum framfætinum en það getur nú verið misminni.
Svava gargaði aftur: „Hlauptu Steingerður! Hlauptu!“ Og í þetta skipti tók ég við mér og hljóp eins og fætur toguðu yfir girðinguna sem Einar Víglundsson var svo elskulegur að leggja niður til að ég kæmist yfir. Hann var líka jafnhandfljótur að kippa henni upp þegar Þórður kom hlaupandi og þannig sameinuðust þau frændsystkini mín um að halda í mér líftórunni ögn lengur. Sagan hlaut svo farsælan endi því Þórði rann reiðin og ég er hér enn. En oft hef ég velt því fyrir mér hvort leikstjórar stórmyndanna Lömbin þagna og Forrest Gump hafi verið þarna viðstaddir og þetta atvik orðið undirstaða tveggja ódauðlegra atriða í kvikmyndasögunni.