fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Lesblinda með morgunkaffinu

Ég var að skoða vefinn visir.is meðan ég drakk morgunkaffið mitt og varð undrandi þegar ég sá fyrirsögnina: 400 miðlar á eftir Lísu. Þetta er áhugavert, hugsaði ég. Lisa Páls orðin svona eftirsótt að 400 fjölmiðlafyrirtæki berjist um hana eða þá að allir miðlar landsins vilji koma til hennar skilaboðum í einu. Það fannst mér mjög líklegt og um leið ákaflega snjallt. Ég sá Þórunni Maggý, Þórhall og ótal fleiri sjáendur fyrir mér á harðahlaupum á eftir Lísu Páls. Ég setti bendilinn á fréttina og klikkaði á takkann á músinni. Þá birtist fréttin: 400 miðar eftir á Lisu. Lísa reyndist sem sagt Lisa Ekdahl sem ætlar að halda hér tónleika. Alls ekki jafnspennandi.