miðvikudagur, september 29, 2004

Ógöngur og aðrar hrakfarir

Ég veit ekki af hverju það hefur loðað við mig frá barnæsku að koma mér alltaf og ævinlega í einhverjar ógöngur þar sem aðrir sjá ekki annað en greiðfærar leiðir og beina braut. Ég brá mér líkt og vani minn er í gönguferð með tíkina eftir vinnu í gær. Við vorum á gangi í Heiðmörkinni fyrir neðan Vífilsstaðahlíð þegar mér datt í hug að kjörið væri að auka áreynsluna með því að klifra upp hlíðina. Ég fór út af göngustígnum þar sem lyngivaxnar brekkur lágu óslitið upp á topp og uppgangan reyndist greiðfær. Þegar upp var komið ákvað ég að ganga spölkorn eftir hlíðinni og fara niður nokkuð utar þar sem mig minnti að væri göngustígur. Ég gekk og gekk en hvergi bólaði á stígnum og fljótlega fór ég að örvænta. Ef ég færi ekki að koma mér niður yrði ég sennilega enn á gangi um miðnættið svo ég beygði snarlega niður í brekkuna og æddi beint af augum niður á við. Ég var ekki komin langt þegar ég var komin í verstu sjálfheldu í miðjum kjarrgróðri og komst eiginlega hvorki aftur á bak né áfram. Það var alveg sama í hvaða átt ég leit allt var jafntorfært svo ég hélt bara áfram sömu leið. Í dag er ég blóðrisa frá klyftum og niður á ökkla og buxurnar mínar og skórnir hafa lifað sitt fegursta. Tíkin var hins vegar ósködduð og fullkomlega hamingjusöm. En af hverju ég lendi endilega í svona aðstæðum veit ég ekki. Ég hef til dæmis grun um að Magga systir hefði aldrei endað á einni þúfu í miðri brekku þar sem eina færa leiðin var raunverulega upp.