Íslandi allt
Heimildarmynd Kristínar Ólafsdóttur How Do You Like Iceland var alveg bráðskemmtileg. En hún vakti mann jafnframt til umhugsunar um þessar klisjur sem maður var alinn upp við. Íslenskar konur eru svo sjálfstæðar, lauslátar og fallegar. Íslenskir karlmenn eru durtar. Landið er fagurt og frítt og tungumálið óskaplega sérstætt. Þetta gekk stundum út í öfgar. Ég man til að mynda eftir því að þegar ég var í barnskóla var okkur kennt að íslenska væri eina tungumálið þar sem stafsett væri eftir framburði. Þessari fáránlegu vitleysu trúði ég allt þar til ég fór að læra enska hljóðfræði og uppgötvaði að Bretar stafsetja eftir framburði en að sjálfsögðu stafsetja þeir eftir eigin hljóðkerfi. Einu orðin í ensku sem ekki lúta þessum reglum um stafsetningu eru af frönskum uppruna en oftast er samt hægt að geta í eyðurnar hvað þau varðar því þar ríkja ákveðin lögmál um hvernig tiltekin tákn eru borin fram hljóðfræðilega. Að auki er íslenska alls ekki í öllum tilfellum stafsett eftir framburði. Hvað með til dæmis: Langur, banki, svangur, Kalli (ætti að vera borið fram eins og so þt kalli) og margt fleira. Gurrí samstarfskona mín benti mér einnig á að langt fram á fullorðinsár hefði hún trúað að hvergi í heiminum fyndist náttúrufegurð í neinni líkingu við það sem sæist hér. Hún áttaði sig ekki á að víða væri jafnfallegt, hvað þá fallegra en hér fyrr en hún fór að ferðast um heiminn. Að sumu leyti var mér eins farið. Ég hélt að landið okkar væri svo óvenjulegt að hvergi væri neitt sem stæðist samanburð. Ég komst líka að því þegar ég fór að ferðast um heiminn að allir staðir hafa sína sérstöðu og einstæða náttúrufegurð er víða að finna. En þar fyrir utan þá verð ég að segja eins og útlendingurinn í Matthildi þegar hann var spurður hvernig honum litist á Ísland: Terrible, terrible, nasty people.