mánudagur, maí 02, 2005

Andagiftin getur verið eitruð

Gift er eitur á dönsku og andagift getur sannarlega verið eitruð. Þessa vísu sendi ég syni mínum áðan til að tryggja að hann missti ekki af fréttnæmum viðburðum.

Að vera aðþrengd eiginkona
alltaf er svona og svona
sagði sú eðla frú
sem Bush er trú.
Eða það verðum við að vona.

Hundalíf

Út af svefnherberginu mínu eru litlar svalir, sem reyndar eru eingöngu til óþurftar því þær mígleka niður í stofuna mína. Þessar svalir eru lítið notaðar af íbúum svefnherbergisins og á þessu rúma ári sem Freyja hefur búið hjá okkur þá hafa þær aðeins verið opnaðar fimm sinnum um miðja nótt til að hleypa læðunni Týru inn. Sú eðla kisa er nefnilega ákaflega séð með að lauma sér út óséð framhjá eigendum sínum á kvöldin og skila sér síðan að lokuðum gluggum um miðja nótt. Týra er skynsemdarköttur og veit því að þetta er eini glugginn sem nokkur von er til að opnist því fóstra hennar skreiðist fram úr á endanum þegar vælið er farið að heyrast til Keflavíkur. (Fóstri hennar bærist hins vegar ekki frekar en hann væri í hljóðeinangruðu rými.) Jæja en þetta var alls ekki sagan sem ég ætlaði að segja. Freyja hefur aldrei viljað fara út á þessar svalir og verið hálfhrædd við þær. Í gær var letidagur á heimilinu og ég lá uppi í rúmi mestallan daginn og las glæpasögu. Aldrei þessu vant kom Týra á svalirnar í björtu og ég hleypti henni inn. Freyja ákvað að kominn væri tími til að kanna þessa viðbót við heimilið og stakk sér út á svalir. Hún var aldeilis hróðug með sig og setti framloppurnar upp á handriðið og kíkti um allt. Við og við rak hún svo hausinn inn um svaladyrnar og horfði á mig eins og hún vildi spyrja: „Sko, sjáðu mig! Er ég ekki klár.“ Móðurhjartað bráðnaði alveg og ekki laust við að mér súrnaði í augum eins og Skarphéðni í brennunni forðum af hreykni yfir fósturbarninu.