miðvikudagur, júní 22, 2005

Loðnar töskur á lækjarbakka

Auður auglýsingastjórinn okkar hér á Vikunni var að senda mér fyrirspurn. Hún vildi vita í hvaða tölublaði væri umfjöllun um töskur frá tiltekinni verslun hér í bænum. Ég mundi ekki eftir að hafa skrifað staf um töskur að því undanskildu að í vor skrifaði ég um töskur úr dýraskinni. Svar mitt til Auðar var því svohljóðandi: Man ekki eftir neinum töskum. Voru þær loðnar? Það var ekki fyrr en ég var búin að senda skeytið að það rann upp fyrir mér að þetta væri frekar óheppilegt orðalag.

Marflær í massavís

Andri ræfillinn sleppur ekki við kveðskap móður sinnar þótt hann sé búinn að ná BS-prófi og útskrifist á laugardag. (Gurrí var að segja mér að ég mætti alveg virkja montgenið betur. Þetta kom fram í stjörnuspánni fyrir Vogina.) Þessar ágætu vísur fékk hann sendar nýlega.

Eitt sinn var marfló sem marðist á kvið
eftir það mátti hún ekki éta svið.
Hún keypti sér pítu
í sjoppunni Rítu
og synti lengst út á Halamið.

Marflóin sem pítuna fékk
fór til læknis pínutékk.
Hún stóðst ekki mátið
en lagðist í átið
þegar sett var á pínubekk.