fimmtudagur, apríl 27, 2006

Og hana nú! Sagði Guðríður

„Og hana nú,“ sagði Guðríður um leið og hús sendi mér harðort komment til að minna á að ég héldi nú út bloggsíðu. Maður verður alltaf að bregðast við áskorunum þannig að ég verð að setja einhver orð á blað. Helsta ástæða fyrir þögn undanfarinna daga er annir. Prófaflóð er skollið á í Leiðsöguskólanum og ég er við það að drukkna. Í gær fór ég í próf í almennri ferðamennsku sem snýst um notkun á áttavita og kortalestur og var auðvitað gersamlega áttavillt. Tókst að klúðra einni spurningu að minnsta kosti og hefði átt að svara annarri ögn betur. Ég er ekki alveg viss með hinar en veit þó að ég kom betur út úr staðsetningaræfingunni en sá sem var með Gumma í Stýrimannaskólanum. Hann átti að staðsetja sig á sjókorti en endaði upp á Snæfellsnesi og kennarinn bauð honum að taka Sæmundarrútuna heim. Ég var aðeins 1/2 cm frá þeim stað sem strákarnir tveir enduðu á sem ég mætti á leið út úr prófinu. Og í ljósi þessa tel ég mig hafa afsannað að konur geti ekki lært á áttavita og ekki bakkað í stæði.