fimmtudagur, apríl 27, 2006

Og hana nú! Sagði Guðríður

„Og hana nú,“ sagði Guðríður um leið og hús sendi mér harðort komment til að minna á að ég héldi nú út bloggsíðu. Maður verður alltaf að bregðast við áskorunum þannig að ég verð að setja einhver orð á blað. Helsta ástæða fyrir þögn undanfarinna daga er annir. Prófaflóð er skollið á í Leiðsöguskólanum og ég er við það að drukkna. Í gær fór ég í próf í almennri ferðamennsku sem snýst um notkun á áttavita og kortalestur og var auðvitað gersamlega áttavillt. Tókst að klúðra einni spurningu að minnsta kosti og hefði átt að svara annarri ögn betur. Ég er ekki alveg viss með hinar en veit þó að ég kom betur út úr staðsetningaræfingunni en sá sem var með Gumma í Stýrimannaskólanum. Hann átti að staðsetja sig á sjókorti en endaði upp á Snæfellsnesi og kennarinn bauð honum að taka Sæmundarrútuna heim. Ég var aðeins 1/2 cm frá þeim stað sem strákarnir tveir enduðu á sem ég mætti á leið út úr prófinu. Og í ljósi þessa tel ég mig hafa afsannað að konur geti ekki lært á áttavita og ekki bakkað í stæði.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Varstu kannski að bakka í stæði og bakkaðir yfir strákana ??

5:44 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég náði ekki borginni New York almennilega fyrr en ég sá kort af henni og þá leið mér betur og rataði frekar. Ekki er ég þó nein trukkalessa og lesandi á kort þess vegna, heldur neita ég að trúa þeirri staðhæfingu að konur noti eðlisávísun til að rata en karlar kort. Slíkt sé óbreytanlegt!!! Djö ... bölvuð vitleysa, bara enn eitt kúgunartækið. Annað tækið er einmitt það að konur geti ekki bakkað í stæði vegna líffræðilegrar ástæðu. Ég efast um að ég gæti bakkað í stæði almennilega ... það er nefnilega búið að segja mér frá því ég man eftir mér að konur séu lélegri bílstjórar en karlar og svona innræting skilar sér. Reyndar ef ég æfi mig (eftir 20 ára bílleysi) veit ég að ég verð æðislegur bílstjóri og kemur kyni ekkert við.
Svo þegar maður berst um hæl og hnakka gegn innrætingum og kúgun þá er maður ýmist kvenremba eða viðkvæm fyrir aldri eða eitthvað slíkt.
Kæra Steingerður! Tókstu eftir nýjasta trikkinu til að kúga konur (eða þannig? Nú þurfa eiginmenn ekki lengur að glíma einir við t.d. ristruflanir því að skv. auglýsingu límdri við Moggann nýlega, er þetta eitthvað sem bæði hjónin eiga að gera eitthvað í. Vissulega bitnar þetta líka á eiginkonunni ... en c´mon, aldrei hef ég séð auglýsingu um meðöl við breytingarskeiðinu þar sem karl og kona sitja fyrir og tala um þetta sem sameiginlegt "vandamál"... Arggggggg, guði sé lof fyrir þessa bloggsíðu yðar - sem rúmar útrás Guðríðar ... en þér var nær að æsa mig svona upp með síðustu setningunni. Og hana nú!!!

9:26 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home