Erfiður morgun boðar vonandi góðan dag
Þetta er búin að vera meiri morguninn. Ég vaknaði klukkan hálfsjö til að geta farið í sturtu áður en ég færi í vinnuna. Eva bað mig þá að hjálpa sér að hlaða bílinn og ég byrjaði á að bera gosflöskur, sólardrykk og snakk út á plan. Hún spurði mig hvort hún mætti ekki fá jeppann því það er ekki gott að vera með litla bílinn svona hlaðinn og ég samþykkti það auðvitað. Jæja, því næst hélt ég af stað í gönguferð með Freyju og sleppti henni á fótboltavellinum niðri í Kópavogsdal. Þar tók hún upp á því að hverfa og það var alveg sama hvernig ég kallaði og blístraði hún lét ekki sjá sig. Þá ákvað ég að halda heim og keyra þá niður í dal aftur ef hún væri ekki þar. Á planinu heima beið hins vegar letilegur gulur hundur og ég var mikið fegin. Síðan skellti ég mér í sturtu og uppgötvaði undir sturtunni að þar var ekkert sjampó. Ég vissi hins vegar af sjampóflösku niðri í þvottahús og staulaðist rennblaut með handklæði utan um mig niður að ná í hársápuna. Fleira bar svo sem ekki til tíðinda fyrr en ég kem út í bíl þess albúin að drífa mig í vinnuna, enda orðin frekar sein. Þá uppgötva ég að bílinn er bensínlaus. Varla nokkur dropi á honum ef marka má mælinn og ég keyri sem leið liggur á Orkuna niður á Dalvegi. Ég sting hausnum ofan í veskið mitt í leit að seðlaveskinu en kemst þá að því mér til mikillar ánægju að seðlaveskið mitt er heima í skólatöskunni minni. Ég keyri heim til að sækja það og niður eftir aftur og ég get svarið það að bílinn var farinn að hökta þegar ég renndi inn á bensínstöðina. Kortið fór í sjálfsalan og svo byrjaði ég að dæla. Ekki er hægt að segja að það hafi gengið þrautalaust fyrir sig því dælan stoppaði eftir nokkra dropa og hikstaði og stoppaði á víxl þannig að mér tókst ekki að dæla nema örfáum dropum í einu. Ég var við það að tapa mér þegar loksins tókst að koma lagi á þetta og klára að dæla á bílinn. Mikið var það fegin kona sem settist inn í bílinn og ók af stað upp í vinnu. Hins vegar var hún ekki komin langt þegar henni varð ljóst að handtaskan hennar með öllum snyrtivörum, húslyklum, hönskum, síma og seðlaveski hafði orðið eftir við bensínsjálfsalan. Við þessar aðstæður er ekki annað að gera en að snúa við og vona það besta og skelfing varð ég fegin þegar ég sá að taskan var á sínum stað. Ég komst í vinnuna og sit þar nú og vona bara að dagurinn verði ekki eins og morguninn.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home