Draumspeki eða verkefni fyrir Freud
Draumfarir fólks í minni fjölskyldu eru frægar af endemum. Ég hef rakið hér eigin drauma en Andri á góða spretti í draumalandinu og það á Helen systir líka. Þá kemur einkanlega upp í hugann eltingarleikur hennar við griðung einn mannýgan í Pennanum Hallarmúla en það skal ég segja ykkur seinna. Núna ætla ég hins vegar að rekja draum dóttur minnar sem hana dreymdi aðfaranótt sunnudags. Blessuðu barninu fannst það vera á klósettinu að gera númer tvö. Þá tók að bulla í klósettinu og vatnið flæddi upp í klósettskálina. Grommsið var við það að flæða yfir gólfið og Eva stóð ráðalaus hjá en þá tók vatnið í klósettskálinni að lækka aftur en eftir sat ugla með spekingssvip á andlitinu á klósettsetunni. Uglan færði sig síðan yfir í baðkarið og Eva settist á klósettið aftur og ætlaði að ljúka við það sem hún hafði byrjað á. Uglan starði hins vegar á hana svo krefjandi augnaráði að stúlkunni fipaðist og hún fann fyrir mikilli hræðslu. Draumurinn endaði eiginlega á þennan veg en þegar Eva athugaði í draumráðningarbók daginn eftir hvað það þýddi að dreyma uglu kom í ljós að hjá ungu ógiftu fólki er það fyrir því að það eignist heimskan maka. Nú er dóttir mín eiginlega tilneydd til að ná sér í kjarneðlisfræðing því annars munu allir fjölskyldumeðlimir aldrei hafa nokkra trú á andlegum kröftum hans. Nú þegar er ljóst að blessaður maðurinn verður ævinlega kallaður Ugluspegill.
1 Comments:
Einu sinni dreymdi mig að ég væri að fara í flugvél með mömmu. Ég sá vélina úti á flugbraut og mér til undrunar var hún úr skíra gulli. Við settumst um borð en þegar vélin var komin á ágæta ferð eftir flugbrautinni kallar mamma upp að hún þurfi aðeins í búð. Og viti menn, vélin stoppar og mamma hleypur út í kjörbúð sem fyrir einhverja undarlega tilviljun var þarna við flugbrautina. Ég man enn pirringinn sem ég fann fyrir, að mamma mín skyldi vera sú sem var að tefja flugið, með enn einni búðarheimsókninni :-)
Skrifa ummæli
<< Home