Gersamlega ur jafnvægi
Það hefur lítið heyrst í mér að undanförnu en það á sínar skýringar. Ég fékk nefnilega vírus við jafnvægistaugina um daginn og fór gersamlega úr jafnvægi. Ég var í vinnunni að venju á sólríku eftirmiðdegi þegar ég fann fyrir svima og ógleði. Ég hélt að þetta myndi líða hjá en þegar það gerðist ekki gekk ég út og reyndi að jafna mig. Tilfinningin ágerðist og ég hringdi því í Gumma og bað hann að sækja mig þótt vinnutímanum væri ekki alveg lokið. Hann kom og mér tókst með naumindum að komast inn á klósett heima áður en ég byrjaði að kasta upp.
Um kvöldið var ég slöpp en ekki beinlínis veik. Ég hrökk hins vegar upp við vondan draum undir morgun og varð þá að hendast fram og kasta upp og að þessu sinni gekk ógleðin ekki yfir. Þegar ég ætlaði að standa upp og ganga inn í rúm aftur kom gólfið á móti mér. Engu var líkara en ég væri um borð í skipi í stórsjó og veltingi. Ég reyndi að standa en kastaðist milli veggja og endaði á fjórum fótum á gólfinu. Að lokum skreið ég inn í rúm og lá þér með ælubakka mér við hlið fram eftir morgni.
Höfðið á mér lagaðist ekki og í hvert skipti sem ég hreyfði mig hið minnsta hringsnerist allt. Ég gat ekki með nokkru móti staðið upp en ef ég lá grafkyrr á vinstri hliðinni leið mér bærilega. Ég lærði því fljótt að þannig borgaði sig að vera. Þetta var undarlegt ástand. Mér fannst eins og höfuðið á mér væri kúla í tveimur lögum. Ytra lagið var fullt af vökva og það mátti ekki hreyfa án þess að skvettur og öldugangur hæfist en i innri kúlunni var hugurinn og þar var allt kyrrt. Ég ákvað því að draga mig í hlé þangað inn og hugsa sem minnst um óstöðuga lagið fyrir utan.
Gumma vesalingnum leist ekki blikuna þegar þarna var komið sögu og því hringdi hann í örvæntingu út á heilsugæslustöð að leita ráða. Fyrir tilviljun voru símaviðtalstímar lækna ekki liðnir og honum tókst að ná sambandi við einn slíkan sem sannar að tími kraftaverkanna er ekki liðinn. Læknirinn ráðlagði honum að fara með mig strax upp á bráðamóttöku og sagðist myndi hringja á undan okkur og sjá til að tekið yrði strax á móti mér.
Klukkan var farin að ganga tíu um morguninn þegar við hjónakornin stauluðumst út í bíl. Ég hékk með annan handlegginn yfir axlir Guðmundar og slagaði eins og dauðadrukkin að bílnum. Hann opnaði afturdyrnar, skutlaði mér inn í sætið og fleygði skolpfötunni inn á eftir mér. Ég greip fötuna eins og drukknandi maður hálmstrá og kúgaðist og kúgaðist. Þeir nágrannar sem séð hafa þetta ferðalag tilsýndar hafa sennilega hugsað með sér: Hann er á leið með hana upp á Vog og auðséð að sú ferð er löngu orðin tímabær.
Leiðin upp á spítala var hrein kvöl. Hver einasta hreyfing bílsins kom af stað svima og velgju. Ég hafði fyrir löngu kastað upp öllu innihaldi magans og annarra meltingarfæra og nú gekk ekki annað upp úr mér en slím og gall. Köstin reyndu hræðilega á mig og á þessari leið stundaði ég þær allra hressilegustu æfingar fyrir kviðvöðvana sem ég hef nokkru sinni gert um ævina.
Við dyr Bráðamóttökunnar sótti Gummi hjólastól og ók mér inn. Það undarlega var við þetta ástand að allra verst af öllu var að sitja uppréttur þannig að veröldin hringsnerist og rúllaði fyrir augunum á mér á leiðinni inn og nú dugði ekki lengur að loka augunum. Meðan ég sat breytti það engu. Í móttökunni vorum við stöðvuð og hjúkrunarfræðingar neituðu að hleypa okkur inn í hið allra helgasta fyrr en ég hefði verið spurð spjörunum úr varðandi ofnæmi, lyf og barnasjúkdóma. Gummi reyndi að útskýra að hringt hefði verið á undan okkur og heilsa mín leyfði enga töf eftir rúmi. Allt kom fyrir ekki. Ég varð að lokum svo örvæntingarfull að hvæsti: Ég verð að komast í rúm. Strax! Ég þoli ekki að sitja upprétt.
Þá opnaðist Sesam líkt og fyrir Aladdín forðum og ég komst inn og upp í rúm. Þar kúgaðist ég góða stund meðan öldurnar lægði. Við tóku endalausar læknisrannsóknir og eilífar spurningar heilbrigðisstarfsfólks. Í sjálfu sér var ekki erfitt að svara þeim en verra var að hver einasti maður sem að sjúkrabeði mínu kom spurði sömu spurninga og þegar ég var búin að tyggja sömu svörin líkt símsvari ríflega ellefu sinnum fékk ég nóg og bað fólkið að skoða skýrslur hinna.
Fyrst af öllu var ég send í heilaskanna og þá varð ég að liggja á bakinu. Það var skelfilegt og ég hugsaði með mér þegar ég gat komið mér vel fyrir aftur í innri kúlunni minna að verra gæti það ekki orðið. En auðvitað áttu örlögin enn eftir trompásinn. Ég var send í segulómunartæki og ef þið hafið einhvern tímann reynt að liggja grafkyrr á bakinu í 40 mínútur inni í litlu rými meðan veröldin ruggar og veltur allt í kringum ykkur og ógleðin ætlar ykkur lifandi að drepa þá vitið hvernig mér leið. Til allrar lukku reyndist höfuð mitt í fínu standi og ég hef uppáskrifað bevís um að ég er ekki heilalaus.
Að þessu loknu komumst menn að þeirri niðurstöðu að annað hvort hefðu kristallar í innra eyra mínu færst til eða ég fengið vírus við jafnvægistaugina. Og þá datt allt í dúnalogn. Ég fékk að liggja á hinni áreiðanlegu vinstri hlið og fékk næringu í æð. Seinna var mér svo ekið upp á dagdeild þar sem ég svaf vært það sem eftir lifði dagsins og alla nóttina, daginn eftir og langt fram á næsta dag.
Á þriðja degi var ég hvött til að reyna að standa upp og setjast upp. Nú brá svo við að ég gat með stuðningi gengið nokkuð um og legið nánast hvernig sem mér sýndist en um leið og ég settist upp helltist ógleðin yfir mig. Ég hef alltaf verið brjálæðislega sjóveik og nokkrum sinnum orðið veik um borð í skipi sem bundið er við bryggju. Kannski var ógleðin þess vegna lengur viðvarandi hjá mér en almennt gerist eða þá að ég var að ímynda mér að sumum hjúkkunum virtist finnast það undarlegt að ég gæti ekki setið.
Aðfararnótt fjórða dagsins sleit ég snúruna niður úr næringarvökvapokanum og sykurvatnið gusaðist yfir mig þar sem ég lá í rúminu. Ég var enn of veik til að geta þrifið mig almennilega þannig að vökvinn þornaði í hárinu á mér og daginn eftir leit höfuðið á mér út eins og illa vanskapaður broddgöltur. Flestir sem einhvern vott hafa af hégómagirnd geta því ímyndað sér hvernig mér leið þegar í ljós kom að ég átti að mæta í heyrnarmælingu á aðra deild svona þokkalega útlítandi. Enn og aftur var mér ekið í hjólastól og enn leið mér skelfilega illa. Líðanin batnaði lítið þegar ég kom inn á deildina þar sem heyrnarmælingin fór fram og þar sátu múgur og margmenni og biðu eftir að komast að þar á meðal lítil börn. Ég sat eins og hrúgald í stólnum og hélt um höfuðið og ég sá að blessuðum börnunum varð um og ó.
Í hljóðeinangraða klefanum var gólfteppi og á því óhreinindablettur sem tók upp á því að skríða eins og skorkvikindi eftir gólfinu fyrir framan augun á mér. Ég gerði mitt besta til að festa augun á honum og halda ró minni en þetta var vondur tími. Þegar ég loks slapp út var mér svo óglatt að ég var nánast viðþolslaus. Hjúkrunarfræðingurinn sem hafði fylgt mér lét hins vegar bíða eftir sér og ég mátti sitja þarna á ganginum með ælupokann í kjöltunni og berjast við ógleðiöldurnar sem skullu sífellt hraðar og brattar á mér. Ég gat ekki hugsað mér að litlu börnin sem biðu þyrftu að horfa á þessa ógurlegu Gilitrutt æla í ofan á lag við allt annað svo ég lokaði mig af inni í litlu kúlunni, taldi upp að tíu og andaði djúpt. Loks birtist hjúkrunarfræðingurinn úr hliðarherbergi og þakkaði fyrir kaffið. Ég óskaði henni í norður og niðurfallið.
Ég sór þess dýran eið að ef ég kæmist lifandi upp á deildina mína aftur myndi ég fara í sturtu þótt það yrði mitt síðasta verk. Sturtan hressti mig ótrúlega og það sem eftir var dagsins leið mér nokkuð vel. Heyrnarmælingin gaf góða niðurstöðu og eftir umfangsmiklar og merkilegar rannsóknir á augnhreyfingum fékk ég að fara heim. Ég slagaði enn og var hálfóstyrk á fótunum þegar ég kom heim fjórum dögum eftir að ég fór og ef sömu nágrannar hafa orðið vitni að heimkomunni og sáu mig fara hafa þeir sjálfsagt sagt hver við annan: „Jah, ekki hafði hann Þórarinn á Vogi erindi sem erfiði með hana nágrannakonu okkar. Hún var enn rallhálf þegar heim kom.“
2 Comments:
Megi þér batna hratt og vel, elsku krúttið mitt!!!!!!!!
Þetta var frábær sjúkrarsaga ... ég lenti í þessu sama um daginn ... nema að ég hafði um 9 ára dreng að hugsa ... fyrst var það næturlæknir ... hann kom og fór ... næsta dag var það heimilislæknir ... geðlyf ... nei ég held ekki ... næsta dag sem var laugardagur var ég viss um að nú væri þetta mitt síðasta svo ég fór á slysó ... nei eftir mínar hremmingar þykir mér beinlínis vænt um að lesa um veikindi annarra og vírusa því ég hélt sannanlega að ég væri komin með óþekkta sýkingu í blóðið ... bestu kveðjur til þín og megirðu aldrey verða svona lasin.
Skrifa ummæli
<< Home