fimmtudagur, apríl 07, 2005

Brjálaðir bílasímar

Stundum misheyri ég alveg rosalega. Krakkarnir mínir hæðast iðulega að mér fyrir þetta en þessar misheyrnir geta verið skemmtilegar. Í morgun var ég hlusta á ellefu fréttir á Ríkisútvarpinu. Pálmi Jónasson las helstu atriði frétta og fyrsta frétt var sú að talið væri að um 4. millj. bílasíma væru komnir til Rómar. Ég velti fyrir mér, meðan hann las það sem eftir var af inngangspistli sínum, hvers vegna það teldist fréttnæmt að allir þessir bílasímar væru í Róm. Ég taldi hugsanlegt að það væri vegna þess að símarnir trufluðu fjarskipti í borginni. En svo kom fréttin: Talið er að um 4. millj. pílagríma séu komnar til Rómar.

Alltaf vantar eitthvað

Ég borðaði hádegisverð ásamt samstarfskonum á Salatbar Eika í hádeginu. Þarna var geysilegt úrval rétta. Alls konar grænmeti, núðluréttir, pasta, ávextir, baunir og margt fleira. Á undan mér að hlaðborðinu var ungur maður um tvítugt og kærasta hans. Pilturinn var varla farinn á stað þegar hann leit yfir þessa ofgnótt og sagði fúll við kærustuna: Hvar eru gulu baunirnar? Eru engar gular baunir? Þetta er athugasemd sem ég hefði getað búist við að heyra einmitt í þessum tón frá pabba mínum sem lést nýlega 84 ára að aldri. Sennilega var það til of mikils ætlast að vona að karlmenn breyttust til batnaðar.

Mínir skínandi persónutöfrar

Gurrí sendi mér tölvupóst áðan sem innihélt persónuleikapróf. Spurt var hvaða ávöxt maður myndi velja úr ávaxtaskál sem innihéldi banana, epli, appelsínu, ferskju og peru. Hvað yrði fyrir valinu myndi síðan segja ótrúlega margt um persónuleika þinn. Ég ákvað að sjálfsögðu að velja ferskju, enda sá ég fyrir mér að ferskjan væri exotískust þessara ávaxta og því líklegt að aðeins sérstakir snillingar veldu hana. Síðan skrollaði ég niður í blóðspreng af spenningi til að komast að því hvers konar manneskja ég eiginlega væri. Svarið var þú ert manneskja sem þykir gott að borða ferskjur. Sama svar gilti um alla hina ávextina. Það besta af öllu er hins vegar að mér þykja ferskjur ekkert sérlega góðar og hefði sennilega valið alla hina ávextina fyrr til átu en ferskjuna. Frá sjónarhorni sálfræðinnar þá myndi þetta val mitt því áreiðanlega kallast blindur metnaður á villigötum. Þannig að ávöxturinn sem ég valdi sagði því ýmislegt um mig eftir allt saman.