föstudagur, apríl 29, 2005

Minnisverð tíðindi

Ég hef alltaf öfundað fólk sem er skarpgreint og fljótt að hugsa. Það hendir ekki oft að ég sé snögg upp á lagið og nái að svara fyrir mig í tíma þannig að þegar slíkt gerist er það þess virði að fært sé í annála. Ég var sem sé að senda viðmælendum mínum eintak af nýjustu Vikunni og gekk fram í afgreiðslu fyrirtækisins til að póststimpla umslögin. Ekki tókst betur til en svo að stimpillinn festis í efstu stöðu og vildi ekki niður. Ég vék mér að móttökustúlkunni okkar og spurði ráða. Hún leit á stimpillinn og sagði með holri, sorgþrunginni röddu: „Drapstu hann.“ Ég svaraði að bragði: „Ég get fullvissað þig um að hann átti það skilið.“

Sjálfspíningarhvöt í æðra veldi

Ég beit mig í puttann og er alveg að drepast. Nei, ég er ekki að ljúga ég beit þéttingsfast í vísifingur hægri handar hér rétt áðan og bitförin eru velsjáanleg. Ég var sko, nefnilega að tala og ætlaði að strjúka hárið úr augunum en fór svo að hlæja um leið eða þannig og það endaði sem sagt með því að ég beit mig í puttann. Ég held að þarna sé verið að hefja sjálfspíningarhvötina upp í eitthvert æðra veldi. Að minnst kosti er þetta ekki alveg eðlilegt.