fimmtudagur, janúar 20, 2005

Eins og belja á svelli

Mikð lifandis, ósköp og skelfing er færðin farin að fara í taugarnar á mér. Þessi eilífðar hálka og ófærð er beinlínis niðurdrepandi. Kona, eins og ég, sem þarf að fara út með fjörugan hund tvisvar á dag er þar að auki í bráðri lífshættu meðan á viðrun dýrsins stendur. Við Freyja höfum skipst á að draga hvor aðra eftir svellbunkunum og tíkin hefur vit á að setjast á rassinn og njóta ferðarinnar en ég rembist eins og rjúpan við staurinn að standa í fæturna og halda einhverjum virðuleik. Það tekst misjafnlega. Ég er að verða svo þjálfuð í þeirri list að halda jafnvægi að hugsanlega get ég skipt um starf og farið að sjá fyrir mér með því að sýna skemmtiatriðið, Belja á svelli, í Skautahöllinni. Adrenalínflæðið hefur auk þess verið slíkt í fleiri, fleiri vikur að líklega mun spennufíkn ekki há mér það sem eftir er ævinnar. Ef ég lifi þennan vetur af og kemst undan vetri óbrotin tel ég að ég eigi skilið einhver verðlaun. Þegar vorar verður manninum mínum tilkynnt hver þau eigi að vera og ég segi ykkur það í trúnaði að þau verða dýr.