mánudagur, september 11, 2006

Gullæði í Smáralind

Ég fann fyrir því í gær þegar nær dró lokum sýningarinnar Fjölskyldan og fjármálin að ég var farin að þreytast. Af einhverjum ástæðum urðu brandarar stútungskarla sem stilltu sér upp fyrir framan mig og sögðu: Þetta er ekkert ekta gullmoli. Þetta er bara spreyjað plast eða trékubbur, sífellt ófyndnari. Nokkrir fullyrtu líka að klumpurinn væri holur að innan. Heimska mannanna kemur mér stöðugt á óvart. Ef um unglingsstráka hefði verið að ræða hefði þetta verið skiljanlegt en þetta voru karlmenn á besta aldri. Allir héldu þeir því fram að ef þeir bara fengju að halda á molanum gætu þeir sagt til um nákvæma þyngd hans. Þvílíkir snillingar! Börnin voru mér einnig umtalsverð uppspretta skemmtunar en sum fundu sig knúin til að standa við borðið mitt til að leyfa mér að njóta yndislegrar kátínu sinnar. Það eina sem hélt aftur af mér var sú staðreynd að leiðinlegt hefði verið fyrir vinnuveitanda minn ef fyrirsagnir í blöðunum í dag hefðu verið: Gullæði í Smáralind: Verndari gullmolans gengur berserksgang og misþyrmir börnum og feðrum þeirra. Ég tek það fram að konurnar voru upp til hópa hógværar og notalegar.

Bjór og Parkinsons-veiki

Mín elskulega, elsta systir var í heimsókn um daginn. Gummi kom gangandi inn í eldhús þar sem við sátum með pilsner-dós í hönd. Ég gat ekki stillt mig um að láta flakka eitthvert snjallyrðið svo ég sagði: Sko sérðu hvað ég þarf að búa við. Sullandi í bjór á miðjum degi. Ég var að vona að þú tækir ekki eftir þessu. Margrét svaraði að bragði: Auðvitað tók ég eftir þessu. Annað hvort var maðurinn fullur eða með Parkinsons-veiki.