fimmtudagur, janúar 05, 2006

Af rigningu og ólögulegu sófahrúgaldi

Margir trúa því að forlögin sjái til þess að maður fái það sem manni helst vantar og það sem maður á skilið. Ef marka má þá tiltrú þá er ég stálheppin að eiga mann sem stundar sjómennsku. Ég get nefnilega trúað ykkur fyrir því að ef hann væri ekki á sjónum væri ég ólögulegt sófahrúgald sem tæpast gæti hreyft sig úr stað. Líklega væri ég milli þrjú og fjögur tonn að þyngd. Gummi er, skal ég segja ykkur, hreint ótrúlega duglegur að taka af mér allt erfiði. Í jólafríinu fór hann út með hundinn, sinnti heimilisstörfunum að mestu(ég eldaði) og sá almennt um að ég gæti legið í friði, sofið, lesið og gommað í mig toblerrone-ís. Nú er sælutíðin sem sagt á enda og undanfarna daga hef ég drattast út að ganga með hundinn í mígandi rigningu og slabbi. Í morgun fengum við til að mynda yfir okkur slíka og þvílíka hellidembu að varla var þurrt hár á feldi Freyja eða þurr þráður á mér. Það var heldur óhrjálegur gulur hundur sem skaust inn um dyrnar í Neðstutröðinni í morgun og ég ætla ekki einu sinni að reyna að finna lýsingarorð yfir fyrirbærið sem fylgdi í kjölfarið. En mikið skelfing hef ég gott af þessu. Hugsanlega hef ég náð að brenna nokkrum grömmum af toblerrone-ísfitu á þessari heljargöngu.