fimmtudagur, september 15, 2005

Köttur í bóli bjarnar

Gummi er kominn heim og enginn á heimilinu hefur farið varhluta af því. Freyja fagnaði honum ákaflega þegar hann kom en í morgun varð henni ljóst að ýmislegt neikvætt fylgdi því að fá karlinn heim. Tíkin er nefnilega vön að stökkva upp í rúm til mín milli fimm og sex á morgnana og kúra sig Gummamegin í rúminu. Hún ætlaði að halda uppteknum hætti í morgun en varð að hætta við stökk í miðjum klíðum þegar hún sá að kominn var ansi stór köttur í ból bjarnar og ekkert pláss fyrir hana lengur. Hún settist því við rúmstokkinn hjá Guðmundi og bofsaði örlítið, ýlfraði og urraði yfir þeirri frekju að vera sofandi í hennar plássi. Við vöknuðum bæði við lætin og þegar Gummi ákvað að færa sig ögn til stökk tíkin upp og kom sér makindalega fyrir á koddanum hans. Þaðan neitaði hún að hreyfa sig og Gummi lagðist á endanum þversum yfir rúmið til að hrófla nú ekki um of við frekjudollunni en henni fannst samt of langt gengið og drattaðist fýluleg burtu. Já, hjónarúmið mitt er sannkallað dýrabæli.