Svefninn mér sígur á brá
Ég fór snemma í rúmið í gærkvöldi. Var búin að dotta í sófanum fyrir framan sjónvarpið og skreiddist því inn um níuleytið til að lesa og var sofnuð fyrir tíu. Ég vaknaði örlitla stund um hálftvö í nótt við það að vælt var ámátlega við þakgluggann undir súðinni hjá mér. Þar var Matti á ferð heldur veðurbarinn og hundfúll. Hann getur nefnilega blessaður opnað alla glugga í húsinu og hleypt sjálfum sér út en gengur verr að komast inn aftur. Ég sofnaði fljótt aftur eftir að ég var búin að hleypa kettinum inn og grjótsvaf til morguns. Þegar ég vaknaði var dimmt og drungalegt í herberginu og ég ákvað að athuga hvað klukkan væri svona bara til að sjá hversu lengi í viðbót ég gæti sofið. Klukkuna vantaði þá átta mínútur í ellefu. Ég rauk upp með andfælum og hringdi í örvæntingu í Elínu til að láta vita að ég væri á lífi og myndi mæta eins fljótt og ég gæti. Ég veit ekki hverslags maraþonsvefnþörf ég hef komið mér upp að undanförnu. Undarlegt en satt, þá lét Freyja mig alveg í friði, svaf bara á koddanum hans Gumma hin rólegasta. Kannski er vetrarmyrkrið á Íslandi að ná tökum á henni líka. Hvað svo sem veldur þá mætti ég í vinnu klukkan rúmlega ellefu í morgun en hef þó smávon um að mér takist að halda mér vakandi yfir fréttunum í kvöld.