Hressileg viðurnöfn og annar viðgerningur
Að undanförnu hafa viðurnöfn leitað stíft á huga minn í ljósi þess að ég hef verið að reyna að svara fornsagnagetraun Moggans og strandað á einni spurningu. Valið stendur milli fjögurra karla sem allir bera hljómmikil viðurnefni. Þetta eru þeir Þórólfur mostraskegg, Arnór kerlinganef, Auðunn rotinn og Þorsteinn þorskabítur. Spurningin er hver þessara göfugmenna lagði það til á þingi að þurfalingum yrði rétt björg þegar harðindi gengu yfir. Því miður gefa viðurnefnin ekkert til kynna um það hver þeirra er göfugastur. Hugsanlega er hægt að útiloka Auðunn rotinn ef menn trúa að viðurnefni hans hafi verið svipaðrar merkingar þá og nú á dögum. En fyrir því fæst engin garantí frekar en því að hjá guði komist menn á fyllerí. Mér hefur ekki tekist að sannreyna neitt í þessum efnum og sveiflast því daglega frá einum heiðurskarlinum yfir á annan. En fyrst verið er að tala um viðurnefni þá er að mörgu leyti eftirsjá að því að þau skuli að mestu aflögð. Til að mynda þessi fíni siður að kenna menn við konurnar sínar eða mæður sínar sem var svo afbragðsgóður. Vísu gat þetta orðið nokkuð flókið þegar menn hétu orðið Siggi HölluMunda eða Doddi NonnaGunnuSiggaSteinu. Sum viðurnefni sögðu óneitanlega margt um eðli mannsins eins og Alli níski eða Pétur spaki. Eitt sinn slapp ég naumlega við að hljóta viðurnefni en fattaði það ekki fyrr en mörgum árum seinna. Þannig var að á leið í skólann þegar ég var fimmtán ára var ég svo óheppin að detta kylliflöt fyrir framan fæturna á nokkrum allra sætustu strákunum í skólanum. Ég ætlaði að bjarga mér fyrir horn og draga úr niðurlægingu minni með því að segja eitthvað snjallt og leit upp og sagði: Ég datt. Þeir hlógu eins og hýenur og upp frá því máttu þeir ekki sjá mig án þess að flissa. Þetta olli mér miklum sálarkvölum allt þar til að Árni Bergmann benti mér á að í raun hefði ég verið heppin. Maður nokkur hefði nefnilega fallið úr bjargi við bjargsig í Vestmannaeyjum og orðið á að segja þegar honum skaut upp úr kafi: Heyrðuð þið dynkinn piltar. Eftir það var hann ekki kallaður annað en Jón dynkur. Hefðu þessir piltar þekkt viðurnafnasiðinn héti ég kannski enn þann dag í dag: Steinka datt eða Steingerður dettin. Já, svona er maður nú oft lúsheppin.