föstudagur, desember 15, 2006

Litla ljósið Týra

Hugmynd Gumma um að gefa Freyju í skóinn hefur sannarleg fengið óvæntan endir. Í gærkvöldi ákvað ég að lauma harðfisk í skóinn þegar tíkin var upptekin niðri svo hann yrði tilbúinn í fyrramálið. Ég kom bitanum vel fyrir og hugsaði mér gott til glóðarinnar að sjá hvort tíkin fattaði þetta á morgun. Ég var ekki búin að sitja lengi frammi þegar ég heyrði krönsssjjj, krönssjj og gerði mér grein fyrir að einhver var að gæða sér á harðfisknum. Ég gáði hvað var á seyði og þá sá ég að litla, rósótta, hógværa læðan mín sat út í glugga og gæddi sér harðfisknum yfir sig ánægð með að vera loksins í friði fjarri græðgisskoltum hinna tveggja heimilisdýranna. Týra er svo hæg og til baka að þegar verið er að gefa harðfisk og hákarnir Freyja og Matti eru nálægt er næsta víst að þau stela af henni eða hún flýr af vettvangi. Seinna setti ég annan harðfiskbita í skóinn og hann fór sömu leið. Það er því læðan en ekki tíkin sem situr að krásum jólasveinsins.