laugardagur, október 30, 2004

Í helgreipum dauðasyndar

Ég veit af hverju græðgi og ofát telst dauðsynd. Undanfarna daga og vikur hef ég nefnilega syndgað ótæpilega og er farin að finna fyrir því. Til að mynda át ég svo mikið hjá Höllu í gær að ég efast um að ég beri þess nokkurn tíma bætur. Meira að segja blessuð tíkin sem hingað til hefur gert sitt besta til að halda mér í formi er að gefast upp. Hún er lögst fyrir og farin að sofa vonlaus um að hið feita, útroðna flykki sem liggur í hjónarúminu verði gangfært framar. Flykkið er hins vegar með hálflokuð augun og í hugskoti þess hljómar þessi setning aftur og aftur: Það er stutt til jóla. Þessi texti er myndskreyttur með fylltum kalkún, steiktri gæs og súkkulaðiís, ekta jólaís. Þið getið áfellst mig ef ykkur sýnist en samkvæmt Bíblíunni er ég bara aumur syndari og hef reyndar lengi verið nokkuð vonlaus um að fá vist í Himnaríki þegar þar að kemur. Kannski get ég laumast inn bakdyramegin svona líkt og þegar sálin hans Jóns míns slapp framhjá Lykla-Pétri. Það er hins vegar háð því að Gummi nenni að ganga lengi, lengi og leggja á reginfjöll. Við verðum bara að sjá til.