miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Harður pakki eða mjúkur

Á visir.is má lesa dásamlega frétt um konu nokkra í Rúmeníu sem fékk jarðneskar leifar föður síns sendar í pósti. Þannig stóð á þessum ósköpum að búið var að selja kirkjugarðinn þar sem karlanginn hvíldi og konan hafði gefið samþykki sitt fyrir sölunni. Hún gerði hins vegar ráð fyrir að kirkjan sæi um að jarðsetja hann annars staðar en nokkrum vikum síðar fékk hún pakka í pósti. Þegar pakkinn var opnaður kom í ljós það sem eftir var af föður hennar. Í fréttinni er tekið fram að þetta hafi verið bananakassi en hver heilvita maður sér að það skiptir auðvitað öllu máli þegar pakki af þessu tagi er opnaður og við manni blasir illa rotnuð beinagrind að pakkað hafi verið í eplakassa fremur en bananakassa. Ég verð að viðurkenna að ég myndi eiginlega ekki vilja fá svona sendingu. En hver veit hvað kann að slæðast með í öllu pakkaflóðinu fyrir jólin.