fimmtudagur, júní 08, 2006

Freyja lætur ekki að sér hæða

Freyja hefur ekki látið að sér hæða í gönguferðum okkar að undanförnu. Á þriðjudagskvöld fórum við í klukkustundargöngu um Álftanes og gula tíkin þurfti endilega að finna eina drullupyttinn á öllu nesinu og vaða ofan í hann. Lappirnar á henni og kviðurinn urðu kolsvört og hún lyktaði af fúlu mýrarvatni. Ég varð að baða hana þegar við komum heim sem vakti lítinn fögnuð hjá frú Freyju. Í morgun gengum við svo niður á Dalveg þar sem Eva er að vinna og tókum bílinn hjá henni. Ég skildi ekkert í því að við tjörnina í Kópavogsdalnum varð Freyja skyndilega rosalega æst og vildi klifra niður grjótbakkann. Hún stakk hausnum inn í holu og þefaði og færði sig síðan að næstu holu. Þá heyrðist hátt og reiðilegt hvæs og haus á bröndóttum ketti gægðist út úr holunni. Í kjölfarið fylgdi öflug kló sem klóraði í átt að tíkinni sem stökk eldsnöggt undan. Ég kippti gulu frúnni upp á bakkann aftur til að tryggja að ekki færi illa fyrir henni. Hún var nú ekki sátt við það og fannst það nauðsynlegt fyrir sig að komast í betri kynni við þennan kött.