mánudagur, febrúar 21, 2005

Hver er hvað og hvað er hver?

Ég er þess fullviss að Freyja heldur að hún fari með mig út að ganga en ekki öfugt. Til að byrja með þá gengur hún venjulega á undan og dregur mig á eftir sér. Hún veltir því áreiðanlega fyrir sér með reglulegu millibili hvort það taki því að vera með þessa kerlingu í eftirdragi. Þá streitist hún við og togar fast í tauminn. Eftir vissan tíma verður henni ljóst að ekki er hægt að losna við þennan dragbít og þá tekur hún á honum stóra sínum og ákveður að sýna blessuðum vesalingnum þolinmæði ögn lengur. Ég held að iðulega hugsi hún með sér: Þetta er nú meiri bægifóturinn. Af öllum mögulegum eigendum þurfti ég að sitja uppi með þennan.

Margt býr í þokunni

Gummi var skorinn upp í morgun og eftir hádegi fékk ég að heyra að allt hefði gengið vel. Ég var þó ekki alveg í rónni fyrr en ég hitti hann áðan. Það hjálpaði að láta tímann líða að ganga með tíkina. Þokan var ansi þétt og ég veit núna hvers vegna forfeður okkar trúðu á drauga, forynjur og alls konar kvikindi. Úti í þykku mistrinu grillir í eitthvað sem maður veit ekki hvað er og það er ekki fyrr en komið er nær alveg að þessari dökku þúst að maður gerir sér grein fyrir hvað þetta er. Gæs á steini leit út fyrir að vera sæskrímsli að skríða upp úr sjónum þess albúið að sitja fyrir saklausu göngufólki og bíta það í hælana. Hópur af æðarfuglum syndandi á sjónum voru eins og bak á stórri, ókunnuglegri skepnu sem maraði í hálfu kafi og langdregið úið í fuglunum hefði auðveldlega getað breyst í skerandi útburðarvæl þegar það barst lengst utan úr grárri, þykkri þokunni. Alversta ófreskjan var þó Kópavogskirkja sem reis eins og risastór, hvítur hvalur með gapandi ginið upp úr holtinu. Þegar saklaust fólk gekk framhjá ljóskösturunum varp það ótótlegum skuggum á hvítan flötinn og engu var líkara en að ógeðslegar, slímugar skepnur liðu fram og aftur í kjafti Moby Dick. Já, margt býr í þokunni.