sunnudagur, apríl 10, 2005

Fúllynt fiðurfé

Við Freyja gengum niður í Kópavogsdal í gærmorgun og fósturbarnið mitt fékk að hlaupa frjálst vegna þess hve fáir voru á ferli. Ég hafði hins vegar gleymt að reikna með fuglunum því ótrúlega stórir hópar fugla eru um allan dal núna. Freyja uppgötvaði fljótt að meðfram öllum Kópavogslæknum höfðu hreiðrað um sig endur. Það nægir eiginlega að segja að þær sátu ekki lengi. Hvert parið á fætur öðru flaug upp með vængjaslætti og gargi og tíkin sentist á eftir þeim eins lengi og hún taldi nokkra von um að ná þeim, sem var talsvert lengi. Gæsir fengu sömuleiðis að kenna á smalaeðli fjárhundsins og lóur og skógarþrestir flugu pirraðir upp í stórum hópum. Stundum var ég hreinlega umkringd pirruðu og fúllyndu fiðurfé. Freyja taldi göngutúrinn hins vegar hafa verið árangursríkan og ánægjulegan.