föstudagur, desember 03, 2004

Frægur af endemum

Viðtal í unglingablaðinu Vamm hefur vakið mikla hneykslun í samfélaginu. Þar lýsir ungur útvarpsmaður því yfir að hann sjái engan tilgang með að stunda kynlíf nema þvaglát komi þar einhvers staðar við sögu og að ef vændi væri leyft yrði lífið gott því þá gætu karlmenn komist af með að eiga tík og keypt sér vændiskonu af og til upp á tilbreytinguna. Margt fleira verulega ógeðslegt lætur hann sér um munn fara og afsakar síðan óhroðann eftir á með því að segja hann grín. Í viðtalinu tali hans alter-ego. Persóna sem hann hafi skapað fyrir útvarpið. Að vísu er það velþekkt í Bandaríkjunum að menn skapi slíkar persónur til að ganga fram af samborgurum sínum. Þótt þetta sé sannarlega ekki til eftirbreytni getur maður þó virt Kananum það til vorkunnar að þar eru margar milljónir manna sem allar þrá að slá í gegn. Örvæntingin rekur menn því iðulega út í öfgar. Hér á landi ætti ekki að vera nein þörf á slíku. Við erum svo fá að hefði Andy Warhol búið hér hefði hann úthlutað mönnum hálftíma frægðar á kjaft í stað fimmtán mínútna. Annar galli á að ganga of langt í athyglissýkinni er sá að þegar menn eru einu sinni orðnir frægir af endemum er erfitt að snúa við blaðinu. Þetta hafa bæði Tracy Lords og Jenna Jamison fengið að reyna. Þessar klámmyndastjörnur hafa gert sitt besta undanfarin ár til að endurheimta virðingu samborgara sinna en ekki gengið of vel. Pamela Anderson og Paris Hilton verða einnig að sætta sig við það að þær verða áreiðanlega betur þekktar í framtíðinni fyrir kynlífsmyndbönd sín en gáfur og manngæsku. Í sjálfu sér er lítið við það að athuga að leyfa sér að verða illræmdur eða alræmdur ef maður er sáttur við að standa þaðan í frá ávallt utangarðs. Staðreyndin er hins vegar sú að flestir vilja taka þátt í samfélaginu og allir þarfnast þess að finna að einhver beri virðingu fyrir þeim. Virðingu verða menn að ávinna sér og eftir að þeir hafa tapað henni getur verið nánast ómögulegt að öðlast hana aftur. Útvarpsmaðurinn ungi kann því að hafa bitið sér stærri tuggu en hann er fær um að kyngja.