Vor í lofti og á legi
Við Freyja vorum að koma úr löngum göngutúr meðfram sjónum út í Kópavogshöfn og upp í hverfið þar fyrir ofan. Greinilegt er að vorhugur er kominn í fólk því við mættum ótal skokkurum ýmist einum á ferð eða tveimur saman og pör gengu hönd í hönd í þokunni. Þar var á ferð bæði ungt fólk og rígfullorðið þannig að greinilegt er að vorið hefur áhrif á alla. Þetta kyrra milda veður hjálpar örugglega til en stafalogn er og dimm þoka liggur yfir. Skyggnið er varla meira en 500 m. Það er eitthvað heillandi við svona veður. Við fundum báðar fyrir því við Freyja. Ég rýndi út á hafflötinn og sá æðarkollur og blika að stinga sér en líka hávellur og stokkendur á sundi. Hávellusteggirnir eru ótrúlega skrautlegir og fallegir núna með hvíta fjaðrabrúska við vængina og á hausnum. Þetta fellur kollunum vel í geð og ég velti því fyrir mér hvort það sé sama lögmál sem rekur hnakkana svokölluðu til að setja strípur í hárið á sér. Kannski eru einhverjar kollur í andahópnum sem vilja frekar trefla og sækjast því eftir þeim steggjum sem eru skrautminni. Heima beið mín lærdómurinn svo ég var ekkert að flýta mér heim en ég les og les undir próf og gleymi öllu jafnóðum. Mér finnst ekkert sitja eftir í kollinum á mér af þessum staðreyndum sem ég er að reyna að innbyrða. Prófið er á þriðjudag og þá kemur í ljós hvort ég kann eitthvað.