miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Vor í lofti

Gummi er að skríða saman og þótt enn sem komið er fái hann kvalaköst af og til virðist hann á batavegi. Ég dreif mig til hans eftir að við Freyja höfðum gengið eftir göngustígnum við Nauthólsvík og út að Ægissíðu. Veðrið var bókstaflega magnað. Mistur og raki í lofti en loftið samt ótrúlega ferskt og hreint. Fossvogurinn og Skerjafjörðurinn rennisléttir og háflóð. Við gengum fram hjá vík þar sem hópur af stelkum og tjöldum höfðu raðað sér á sker. Svo þétt var skerið setið að í hvert sinn sem einhver frumlegur stelkur eða ofurbjartsýnn tjaldur fékk þá frábæru hugmynd að laga sig ögn til komst rót á allan hópinn. Fuglarnir görguðu og tístu og nokkrir flugu upp í örvæntingu fremur en að renna út af steininum. Eftir svolitla stund komst kyrrð á að nýju og allir höfðu fundið sinn fermillimetra en síðan endurtók sagan sig. Ég horfði á þetta í smástund og skemmti mér konunglega. Ég verð að segja að ég hef séð og upplifað svo ótrúlega margt tengt náttúrunni hér í borginni síðan ég eignaðist þennan hund. Sennilega hefði ég farið á mis við þetta allt ef hún hefði ekki dregið mig út á hverjum degi.

Leynigarðurinn minn

Loks varð lát á þessu dularfulla veðri sem verið hefur. Í gærkvöldi brugðum við Freyja okkur í gönguferð í vægast sagt furðulegum veðurskilyrðum. Niður við jörð og allt upp að mæni húsanna í Kópavogsdalnum hékk þykk, grá þoka svo vart varð greint lengra en fram á nefbroddinn en þegar litið var upp blasti við stjörnubjartur himinn og nánast blindfullur máni. Við urðum nokkrum sinnum að stoppa og anda að okkur þessu skrýtna andrúmslofti sem varð enn ójarðneskara þegar við fundum óvænt leynigarð inn á milli húsa. Við komum auga á gangstétt sem virtist ekki liggja eitt eða neitt. Þessi undarlega hellulögn byrjaði við lóðarmörk eins húsanna og séð frá götunni virtist hún einna helst liggja upp að næsta húsvegg. Við ákváðum að fylgja þessari slóð og vita hvert hún leiddi, og viti menn, skyndilega beygði gangstéttin upp á við og þá blasti við stór og fallegur garður með tröppum, runnum, trjám og leiktækjum. Það var alveg hreint með ólíkindum að þetta stórt rými leyndist þarna inn á milli einbýlishúsanna. Ef eingöngu hefði verið horft frá götunni hefði engum geta dottið í hug að þetta stóra leyndarmál væri að finna rétt handan við horn næsta húss. Við gengum þarna um góða stund og þegar við komum út á götuna hinum megin fannst mér eins og ég hefði stigið út úr einhverri ævintýrabók inn í raunveruleikann aftur.