Engin ævintýri í ár
Sunnudagurinn var letidagur hjá mér og ég lá fyrir framan sjónvarpið og horfði á Harry Potter og leyniklefann. Þá rann allt í einu upp fyrir mér hvað það er sorglegt að engin ævintýri eru væntanleg í ár. Nýja Harry Potter bókin kemur ekki fyrr en næsta ár og Lord of the Rings myndirnar eru búnar. Mér fannst þetta voðalegt. Að vísu kemur Harry Potter og Fönixreglan í bíó einhvern tíma fyrir jól en hugsið ykkur bara hvað lífið var skemmtilegt þegar árlega kom bók um Harry Potter og kvikmynd um sama strák og þar að auki myndir um barátu álfa, manna, dverga og hobbita við hinn illa Sauron. Já, það var í hina gömlu góðu daga. Nú er lífið litlausara og ef við hefðum ekki Magna og Supernova værum við sennilega fyrir löngu gengin í björg.