Hormálið á Kúgili
Þið hafið nú gott af því að lesa og þess vegna kemur hér langlokupistill.
Árið 1839 var ekkert góðæri á Íslandi. Dýrasta eign kotbóndans var sauðkindin og henni ekki fórnað jafnvel til að halda lífi í sínum nánustu. Örfín lína skildi milli fátæktar og örbirgðar og það var á ábyrgð húsfreyjunnar að sjá til þess að matföng entust út veturinn. Til þess þurfti útsjónarsemi og stundum verstu nísku. Sagan af heimilisfólkinu á Kúgili er sérlega lýsandi fyrir lífið á þessum tíma einkum verstu hliðar þess.
Að Kúgili í Eyjafirði bjuggu hjónin Þórður Þorfinnsson og Þórunn Jónsdóttir. Á heimili þeirra var einnig móðir Þórðar, Anna Þórðardóttir. Karl faðir hans, Þorfinnur Brandsson, hafði brugðið búi og afhent Þórði helming eigna sinna gegn því að sonurinn sæi um móður sína meðan hún lifði. Þorfinnur hélt eftir sínum helming til að sjá fyrir sér og var í húsmennsku hjá syni sínum.
Þennan vetur er kuldi mikill og vosbúð í baðstofunni á Kúgili þar sem Anna Þórðardóttir liggur. Hún er sjötíu og tveggja ára og farin að heilsu. Sveitarrómur pískrar um að Anna muni ekki njóta hlýju eða góðs atlætis hjá tengdadóttur sinni og þegar gamla konan deyr kemst pískrið í hámæli.
Sýslumaður látinn vita
Yfirvöld sjá sér loks ekki annað fært en að bregðast við og séra Hákon Espólín í Stærra-Árskógi skrifar Birni Jónssyni, hreppstjóra á Auðbrekku. Hreppstjórinn sendir bréfið áfram til sýslumanns Eyjafjarðarsýslu. Hvað svo sem prestur hefur sagt er augljóst að það hefur verið kveðið fastar að orði en svo að eingöngu hafi verið haft eftir sveitaslúðrið því sýslumaður skipar að lík Önnu sé flutt til sín til skoðunar. Honum er þá sagt að búið sé að jarða Önnu en sex menn hafi skoðað líkið áður.
Sýslumaður telur næga ástæðu til að rétta í málinu og hinn 21. apríl er hafið réttarþing að Stærra-Árskógi. Kölluð eru fyrir ótal vitni og bera allir að margt hafi verið skrafa um illa meðferð á Önnu. Björn Jónsson hreppstjóri hafði þess vegna gert sér ferð að Kúgili til að kanna hvað væri hæft í þessum orðrómi. Honum sýndist Anna grönn og vesælleg en ekki svo mjög. Hann spyr gömlu konuna um hvernig viðurgjörnings hún njóti en hún fer undan í flæmingi og kemur sér hjá að tala um það. Hreppstjóranum þykir þó ekki ástæða til að aðhafast frekar.
Nágrannar þeirra á Kúgili bera þeim feðgum almennt vel söguna en Þórunn húsfreyja hefur slæmt orð á sér. Hún þykir þrasgjörn, nísk, nokkuð heimsk og illa lynt. Tengdafaðir hennar hefur það um hana að segja að hún hafi ekki látið skera nóg fé til heimilisins um haustið og að hún sé ekki nógu góð manneskja.
Sýslumaður skilur ekki neitt í neinu
Bertel Holm Borgen sýslumaður Eyjafjarðarsýslu er danskur og hann skilur ekki kotbóndann sem leiddur hefur verið fyrir hann. Sýslumaður spyr því agndofa hvers vegna sonurinn hafi þá ekki skorið eina af kindum sínum móður sinni og matarlitlu búi til bjargar. Þorfinnur svarar að það hafi hann ekki getað vegna skulda. Sýsli innir hann þá eftir hvers vegna hann hafi sjálfur ekki fórnað einhverjum sauða sinna konunni til hressingar. Sá gamli svarar: „Ég mátti ekki missa þá, ég er að berjast fyrir mér sjálfum.“
Borgen sannfærist fljótt um sekt Þórunnar húsfreyju en allt bendir til að þeir feðgar hafi lítið fylgst með og verið afskiptalitlir um matarskammta eða önnur innanhússmál. Sýslumaður einbeitir sér þess vegna að því að knýja fram játningu konunnar. Hann lætur grafa upp lík Önnu Þórðardóttur og tengdadóttir hennar er látin votta að þarna sé tengdamóðir hennar komin. Í dómsmálabókinni segir að hún hafi við það verið „stúrin og niðurslegin“. Og Borgen hefur erindi sem erfiði, Þórunn játar. Hún segist allan þennan vetur hafa gefið Önnu lítið að borða í þeim tilgangi að hún skyldi deyja úr hor. Hún tíundar matarskammtinn sem sannarlega var skorinn við nögl en segir að þetta hafi ekki komið til fyrr en þetta misserið því áður hafi Anna getað gert ýmislegt til gagns. Þennan vetur hafði hún hins vegar legið í kör. Þórunn játar einnig að hafa talað illa til gömlu konunnar og verið henni vond.
Húsfreyjan unga segir þetta ekki hafa verið samantekin ráð þeirra hjóna en þó muni Þórður hafa vitað hversu naumt móður hans var skammtað. Síðan biður hún guð og menn að fyrirgefa sér þennan misgjörning. Þeir feðgar eru næst kallaðir fyrir aftur og enn sem fyrr segja þeir Þórunni bera alla ábyrgð á matarskömmtun og ekkert hafi þýtt fyrir þá að reyna að tala um fyrir henni. Þórunn væri ráðrík og hafi ætíð farið sínu fram. Þórður reynir þó að bera blak af konu sinni og segir að hún hafi aldrei kvartað við sig um að móðir hans væri til þyngsla. Hún hafi að vísu haft á orði þegar gamla konan hafði legið lengi veik að gott væri ef guð tæki hana til sín svo hún þyrfti ekki að þjást svona mikið.
Ekki er sopið kálið
Borgen telur sig hafa unnið mikinn sigur, fyrir liggi játning og nú sé ekki annað eftir en að dæma. Hann setur réttarþing 2. maí til að ljúka vitnaleiðslum og leggja málið í dóm. En Þórunn húsfreyja er ólíkindatól og snýr taflinu óðar en hendi verði veifað. Þegar hún kemur fyrir réttinn þennan dag dregur hún fyrri játningu sína til baka og kveður hana tilkomna af aðgæsluleysi, gáleysi og sansatruflun sem komið hafi yfir sig þegar hún var að hugsa um þetta mál sennilega vegna þess að hún væri ólétt.
Rétturinn varð óstarfhæfur um stund sökum undrunar sýslumanns en síðan tekur hann til við að reyna að flækja húsfreyju í eigin neti. Hann lætur lesa upp framburð hennar og nefnir að hún muni hvert smáatriði um matarskammtinn og beri það hvorki vitni um gáleysi né aðgæsluleysi hvað þá sansatruflun. Þórunn svarar að það geti vel komið fyrir að maður sé með fullum sönsum á einu augnabliki en á öðru ekki.
Eftir þessa uppákomu tekur sýslumaður sér réttarhlé nokkra daga en síðan er Þórunn kölluð fyrir aftur. Þau þrefa fram og aftur og enn reynir sýslumaður að koma henni á kné en hún verst öllu fimlega. Hún játar að Anna heitin hafi fengið of lítið að borða og telur að það ásamt kuldanum í baðstofunni hafi sennilega flýtt dauða hennar. Borgen finnur þarna snöggan blett og er fljótur að fylgja eftir og spyr hvort hún h afi þá ekki gert sér grein fyrir því um veturinn hvert stefndi?
Þórunn segist eiginlega ekkii hafa hugsað um það. Enn heggur Borgen og spyr hvort í þessu orði „eiginlega“, liggi ekki ábending um að hún muni hafa hugsað um þetta og því verið meðvituð um að tengdamóður hennar biði ekki annað en dauðinn ef ekki yrði bót á aðbúnaði hennar. Þórunn svarar að hún sé fávís kona og viti ekki hvað þetta orð þýði en það hafi verið eftir dauða tengdamóður sinnar að grunur um að ofangreindar þrjár orsakir hafi valdið dauða hennar hafi vaknað. Og þessi kona hlaut þann vitnisburð sveitunga sinna að hún væri heimsk.
Sýknuð í landsyfirrétti og hæstarétti
Hvernig sem Borgen reynir fær hann húsfreyju ekki til að játa aftur að hún hafi einsett sér að losa sig við karlæga tengdamóður sína. Í forsendum dómsins er fæðuskortur talin önnur af dánarorsökum Önnu ásamt meinsemd í lifur. Borgen fer þó ekki ofan af því að Þórunn hafi af ásetningi og vísvitandi komið af sér þeirri heimilisbyrði sem Anna var orðin. Hann dæmir hana því til að erfiða í betrunarhúsi í Kaupmannahöfn í sex ár. Þeir feðgar voru dæmdir til að greiða sex ríkisdala bætur í fátækrasjóð Arnarneshrepps.
Landsyfirréttur sýknaði seinna Þórunni en gerði henni að greiða varðhaldskostnað og öll lögleg útgjöld af sökinni. Hæstiréttur staðfesti þann dóm og bætti við 20 vandarhögga refsingu við. Allar eigur Kúgilsfólksins voru því seldar á uppboði til að mæta málskostnaðinum og þar með talið sauðféð allt sem ekki mátti fórna til að hægt væri að hressa gamla sjúka konu á nýmeti á Þorranum.
En hvort Þórunn húsfreyja var kaldrifjaður morðingi eða einfaldlega aðhaldssöm húsfreyja sem af ótta við örbirgðina tók þá áhættu að örlitlir matarskammtar nægðu til að gamalmennið tórði til vorsins skal ósagt látið. Því verður sennilega aldrei fullsvarað en víst er að fátæktin er ekki til þess fallin að rækta manngæsku hjá sumum. Kúgilsfólkið tapaði öllu sínu vegna dauða gömlu konunnar og því hafa þau hvernig sem á allt er litið hlotið makleg málagjöld.