föstudagur, apríl 28, 2006

Skýring fundin á sokkahvarfi

Oft hef ég heyrt konur býsnast yfir því að sokkarnir hverfi í þvottavélinni. Á öllum heimilum eru sokkarnir dregnir af báðum fótum og settir í óhreinatauskörfuna en þegar gengið er frá þvottinum eftir að hann hefur verið þveginn ganga ævinlega nokkrir sokkar af og enginn maki finnst handa þeim hvernig sem leitað er. Nanna Rögnvaldar telur að sokkaskrímsli nokkurt fari um og steli þessum sokkum og ég held að ágiskun hennar sé ekki fjarri sannleikanum. Ég var nefnilega að lesa um einfætlinginn sem býr í Þórsmörk núna um daginn. Gangnamenn sem gista Mörkina hafa oftar er einu sinni séð þennan undarlega einfætling í fjarska en hann hreyfir sig úr stað með því hringsnúast hratt um sjálfan sig. Slíkur einstaklingur hlýtur að spæna upp mikið magn af sokkum á ári og hverju og því eðlilegt að hann reyni að hjálpa sér sjálfur í óhreinatauskörfum landsmanna. Mikið er alltaf gaman að geta sagt: „Gátan leyst.“