Sveitarómantík í vinnunni
Ég get ekki sagt að ég þjáist af pennaleti þessa dagana þótt fátt af því sem ég skrifa rati inn á bloggið. Ég sit við í vinnunni flesta daga og skrifa og les yfir greinar. Ef ég lít upp blasir við mér óbyggt holt og hestamenn að viðra sig og dýrin sín. Hér rétt fyrir ofan er nefnilega reiðstígur og þar fara um fjöldinn allur af mönnum, hrossum og hundum á hverjum degi. Þetta er sannarlega ánægjuleg viðbót við skrifstofuna og ég þekki orðið í sjón suma hunda og hesta. Ég hef hins vegar ekkert fyrir því að stúdera reiðmennina, hvað þá að leggja útlit þeirra á minnið. Tveir kolsvartir hundar eiga alltaf leið um stíginn fyrir hádegi. Þeir hlaupa á eftir einum skjóttum hesti og einum brúnum. Annar hundurinn er alveg svartur en hinn er með hvítan blett á bringunni. Ég skírði þann svarta Kolskegg og hinn Bláskegg. Strangt til tekið er skeggið auðvitað ekki blátt en skítt með það þótt maður skreyti svolítið. Já, sól skín í heiði og haustlitirnir loga í brekkunni her fyrir framan mig. Það hlýtur að vita á gott.