sunnudagur, október 01, 2006

Afmælisveður og tíkartölt

Jamm, ég á afmæli í dag. Orðin næstum því jafngömul og Madonna og Gurrí. Aumingja Gurrí varð að óska mér til hamingju hér við eldgamla færslu vegna ótrúlegrar pennaleti minnar undanfarnar vikur. Ég hef mér það til afbötunar að ég hef verið mjög upptekin m.a. af því að skipta um starf. Ég tók að mér að ritstýra nýju tímariti og er nú farin að skrifa fyrir karla líka sem er bæði nýstárlegt og skemmtilegt. Að auki kenni ég í Leiðsöguskólanum og síðasti tíminn minn þar er á miðvikudaginn kemur. Þar að auki hefur þrisvar verið hringt í mig að undanförnu og ég beðin að leiðsegja en ég hef lært að segja nei við því. Afmælisdagurinn byrjaði á því að Gummi hringdi og óskaði mér til hamingju. Freyja lét óðslega eftir það þannig ekki undanfæri að fara með hana út. Við töltum því út á Álftanes og nutum veðurblíðunnar. Gangan var dásamleg. Veðrið stillt og bjart og lognkyrrt hafið eins og himinblár spegill. Mosinn var víða þakinn hrími sem myndaði fíngert mynstur á jörðina. Döggin glitraði á stráunum og ekkert hljóð heyrðist nema hást garg í reiðum hrafni sem var ekkert um heimsókn okkar mæðgna gefið. Þaralyktin í svölu loftinu var hressandi og ég velti fyrir mér hvernig vogurinn hafi litið út á sextándu öld þegar allir áttæringarnir, fjögurra manna förin og tveggja manna skekturnar ýttu úr vör á svona degi til að mannfólkið mætti bera sig eftir björginni. Er það ekki undarlegt hvað náttúran gerir mann meyran?