fimmtudagur, júní 23, 2005

Lögst í lóðarí

Fyrir þá sem ekki hafa heyrt þá fór maðurinn minn á lóðarí nú í vor. Það greip hann skyndileg löngun til að byggja á gamalsaldri (kannski er þetta hinn margumtalaði grái fiðringur nema í Guðmundur tilfelli yrði það grænn fiðringur). Jæja, skemmst er frá því að segja að honum tókst að kveikja hjá mér bæði áhuga og eldmóð þannig að ég er nú orðin æst í að verða lóðareigandi við Elliðavatn og byggja mér bjálkahús og svo auðvitað lifa hamingjusamlega uppfrá því. Guðmundur stakk af út á sjó áður en lóðir voru auglýstar hjá Kópavogsbæ þannig að fallið hefur í minn hlut að sjá um umsóknina og í morgun sendi ég þetta frá mér. Ég sótti um þrjár lóðir og ætlaði að fá lóð í brekku, ekki alveg við vatnið heldur ofarlega með útsýni og svo vildi ég vera innarlega í botnlanga. Ef alræmdir hæfileikar mínir til að lesa kort eru hafðir í huga þá hef ég sennilega sótt um mýrarpytt alveg við vatnið og þjóðveginn. En hvað um það. Að sjálfsögðu fékk ég Gurrí til að leggja hægri hönd á umslagið og hrækja þrisvar yfir hægri öxlina áður en ég sendi það af stað. Ef svo magnaður galdur dugar ekki þá er fokið í flest skjól hjá íslenskum nornum.