miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Allt vald spillir

Alveg er það merkilegt hvað valdið spillir manninum. Eiginlega má segja að því meira vald sem einstaklingi er gefið yfir öðrum því viðbjóðslegri verður misnotkun hans á valdinu. Þrjú dæmi um þetta eru einmitt mjög augljós okkur Íslendingum nú. Fyrst misnotkun Guðmundar í Byrginu á skjólstæðingum sínum sem er sérlega ógeðfelld í ljósi þess að um var að ræða stúlkur sem allar höfðu mátt þola kynferðislegt ofbeldi í mismiklum mæli. Það er því miður alveg öruggt að stúlkur sem hafa verið í mikilli eiturlyfjaneyslu hafa verið misnotaðar á margan hátt af bæði dópsölum og félögum sínum. Einhvern veginn finnst manni enn andstyggilegra að menn skuli geta hugsað sér að níðast á þeim sem þegar er búið að misþyrma á andstyggilegan hátt. Það er eins og sagan af kennaranum sem barði strákana í bekknum af því þeir voru hvort sem er barðir heima hjá sér. Hitt dæmið eru kynferðisbrotamennirnir sem Kompás veiddi í gildru en þessir menn notfæra sér sakleysi og reynsluleysi ungra stúlkna til að tæla þær til sín og misþyrma þeim. Og að lokum er það þetta hroðalega ofbeldi og viðbjóður sem viðgekkst á unglingaheimilinu á Breiðuvík. Vissulega er Ísland ekki einsdæmi og alls staðar í heiminum eru dæmi um slíkt. En það gerir þetta ekki betra. Ég er farin að halda að við megum aldrei undir nokkrum kringumstæðum gefa neinum manni vald yfir öðrum því ekki er annað að sjá en það endi alltaf á einn veg.