Konuraunir assesors Bjarna
Hér kemur annar Lesbókarpistill:
Hugsanlega tók fallegt vorveður með svalri hafgolu og útsýn til Snæfellsjökuls á móti assesor Bjarna Thorarensen þegar hann steig á land af vorskipi árið 1811. Líkt og venjulega þegar fréttist af skipakomu í fásinninu voru múgur og margmenni stödd í nágrenni fjörunnar þegar bátarnir renndu að landi með farþegana og ábyggilega hafa margir fylgst sérstaklega með embættismanninum unga og stungið saman nefjum um hversu glæsilegur hann væri og vel til fara.
Bjarni hafði verið skipaður aukadómari við landsyfirréttinn eftir níu ára dvöl í Kaupmannahöfn við nám og störf. Eitthvað hafði orðstír hans flogið á undan honum og menn þóttust vita að þar færi gáfumaður og skáld gott en jafnframt nokkuð aðsópsmikill, stórorður og grobbinn gleðimaður.
Bjarni sest fyrst að í Reykjavík hjá dönskum verslunarmanni Jens Klog og Guðrúnu Jónsdóttur konu hans sem var dóttir eins af vefurunum í Innréttingum Skúla fógeta. Jens lést skömmu síðar og flutti Bjarni sig þá um set. Maddama Klog var drykkfelld nokkuð og lenti af þeim sökum í basli eftir fráfall eiginmannsins. Líklega hefur henni þó ekki verið alls varnað því svo samdist með Bjarna og henni að hún yrði bústýra hans eða ráðskona.
Ástleitin ráðskona
Honum hefur sennilega gengið það eitt til að hlaupa undir bagga með þessari fyrrum húsmóður sinni en konan sá í sambúð þeirra prýðilegasta tækifæri til að komast á ný í örugga höfn hjónabandsins. Tvennt kom til er gerði það hálfundarlegt að maddaman færi að gera sér vonir um slíkt, annað það að hún var um fertugt en Bjarni tuttugu og átta ára. Hitt vóg þó þyngra að jafnættgöfugur maður og Bjarni Thorarensen gerði ákveðnar kröfur um ætterni væntanlegrar eiginkonu og uppfyllti maddama Klog ekki þau skilyrði. Henni hefur þótt að fyrrum kona danskættaðs kaupmanns sem að auki var bróðir þáverandi landlæknis mætti renna hýrum augum hærra en rétt og slétt vefaradóttir.
Auk þess er vitað af bréfum sem Bjarni skrifaði vinum sínum í Kaupmannahöfn að hann var fús til að sigla fleyi sínu í örugga höfn hjónabandsins og hafði leitað fyrir sér eftir kvonfangi en gengið bónleiður til búðar. Ekki er vitað hver sú stúlka var eða hvað kom til að hún hafnaði svo vænum biðli en maddama Klog hefur sennilega talið sig þess umkomna að sefa sorgir og sært stolt assesors Bjarna. Hann var þó á öndverðri skoðun. Hann taldi bústýru sína nálega gengna af göflunum og leið mikla önn fyrir ástleitni hennar.
Heimilisástæður assessorsins komust enn fremur jafnskjótt í hámæli og voru hafðar í flimtingum manna á milli. Gilti einu hvort um var að ræða sauðsvartan almúgann eða yfirstéttina sem Bjarni sjálfur tilheyrði hvorum tveggju var umræðuefnið jafngómsætt í munni. Að lokum sá Bjarni sér ekki annað fært en að reka maddömuna frá sér og flæktist hún þá manna á milli í bænum og hefur sennilega verið mörgum aufúsugestur er fýsti að frétta frá fyrstu hendi samskipti þeirra Bjarna. Hann tók allt þetta mál mjög nærri sér og þótti Reykjavík að eigin sögn hvimleiður bær. Sú mæða sem hann varð fyrir þar hefur líklega átt sinn þátt í því að hann varð fráhverfur bæjarlífinu og flutti sig upp að Gufunesi.
Krókóttar leiðir upp altarinu
Þegar ráðskonumálið hvímleiða var frá hefði mátt ætla að þessum unga menntamanni væru allir vegir færir að biðja sér konu sem honum sómdi en nokkrar ástarraunir biðu Bjarna áður en hann að lokum kvæntist. Því olli aðallega erkifjandi hans Magnús Stephensen en þrisvar tókst honum að spilla svo um fyrir kvonbænum Bjarna að hann varð af stúlkunni. Fyrst bað assessorinn Guðrúnar Stefánsdóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal en hún sagði honum upp eftir að hafa setið tvö ár í festum. Þá sneri hann augliti sínu að Odda á Rangárvöllum. Treysti Bjarni þar á að Ólafur Finsen bróðir stúlkunnar sem hann ætlaði sér hefði hug á að kvænast systur sinni. Ólafur reyndist hins vegar ástfanginn af annarri og varð þá ekki af frekari ástleitni af hálfu Bjarna í þeim ranni.
Næst leitaði hann fyrir sér hjá Stefáni amtmanni á Hvítárvöllum bróður Magnúsar Stephensen og var dóttir Stefáns föstnuð Bjarna. Magnús tók fljótlega að beita áhrifum sínum og skemmst frá því að segja að hann náði að telja bróður sínum hughvarf og bróðurdóttur sína á að bregðast orðum sínum.
Bjarni reið að lokum á laun vestur í Stykkishólm og bað Hildar Bogadóttur sem hann kvæntist fjórum dögum síðar. Í þá daga þóttu langar trúlofanir tilhlýðilegar svo þetta var nokkuð óvenjulegt. Líklega hefur hann ekki ætlað að eiga á hættu að nokkur næði að spilla þessu sambandi. Bjarni kom sem sagt að sunnan vopnaður giftingarleyfi til að allt mætti nú ganga sem greiðlegast og áður en Viðeyjarjarl hefði spurnir af ferðum hans. Hjónaband hans og Hildar varð þrátt fyrir flumbruháttinn farsælt og Bjarni hrósaði fljótt happi og taldi sig hafa hreppt góða konu. Minna mátti gæfan nú varla gera eftir að þær raunir sem hann hafði áður ratað í í kvennamálum.
1 Comments:
Þessir pistlar þínir eru snilldarlega skemmtilegir. Kv. Guðrún K.
Skrifa ummæli
<< Home