Prentvillupúkinn gengur berserksgang
Og fyrst ég er farin að tína til gamla pistla á annað borð þá kemur hér enn einn:
Ég er ein af þeim sem láta sér annt um íslenskt mál og leiðist því skelfilega að heyra því misþyrmt með málvillum og ambögum. Af sama toga er spunnin ást mín á bókum og ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir hinu ritaða orði. Þess vegna verð ég óskaplega örg þegar mér berast í hendur blöð, tímarit eða bækur þar sem hver prentvillan rekur aðra í kraðaki afbakaðra setninga lélegrar málvitundar.
Í þýðingum reynir ekki hvað síst heilbrigða skynsemi og góða tilfinningu fyrir máli. En þegar villur af þessu tagi verða fyndnar er hugsanlega hægt að fyrirgefa þær. Dæmi um slíkt var í Frank og Jóa bók sem ég las mér til gamans í æsku. Þar var sagt frá því að eftir dansleikinn hefðu Frank og Jói, bróðir, hans brugðið sér í gönguferð á ströndinni með döðlunum sínum. Mér þótti með ólíkindum að jafnheilbrigðir piltar og Frank og Jói töltu um strendur, götur eða fjöll með döðlur sér við hlið svo ég fór að leita mér upplýsinga um hvað gæti verið hér á ferðinni. Eldri systir mín grét af hlátri þegar henni var sýnd bókin því hún benti mér á að sennilega væri enska setningin eitthvað á þá leið að Frank og Jói hefðu farið með „their dates for a walk on the beach" en það er nefnilega allt önnur ella því þá er um að ræða stúlkurnar sem þeir áttu stefnumót við um kvöldið frekar en hinn gómsæta ávöxt döðlur, forboðnar eður ei.
Í kvikmyndinni Ship of Fools kemur einn farþeganna inn í skipstjóraklefann til Omars Sharif sem lék þann sem þar réði ríkjum og kvartaði hástöfum yfir framkomu skipverja við sig. Omar gengur að vínskáp hellir sér í glas og snýr sér að farþeganum óánægða og segir: „Would you like to join me?“ Þetta var þýtt: „Viltu vera mér samferða.“ En Omar var auðvitað að bjóða farþeganum hjartastyrkjandi drykk sér til samlætis. Annað frægt dæmi þegar einhver snillingur á fréttastofu Stöðvar 2 flutti frétt af opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur til Danmerkur. Vigdísi var boðið að taka þátt í krydsild með Margréti danadrottningu. En krydsild þýðir í skoðanaskipti eða rökræður. Fréttamaðurinn var ekki betur að sér en svo að hann sagði að Vigdísi hefði verið boðið í kryddsíld ásamt Danadrottningu.
Prentuvillupúkinn er ærsladraugur
Ekki er síðra þegar neyðarlegar prentvillur setja ofurlítið annan svip á efnið en til var ætlast. Þannig gleyma víst fáir kirtli krists sem var efni fyrirsagnar í Tímanum en orðið var haft með einföldu í stað ypsilons svo tilefni varð til langra vangaveltna meðal gárunganna yfir hver innkirtla Krists hefði þarna verið til umræðu. Sumir veðjuðu á nýrun, aðrir brisið og sumir vildu færa sig neðar. Sennilega jafngott að þeim umræðum var ekki vísað til rannsóknar saksóknara líkt og páskaþætti þeirra Spaugstofumanna forðum.
Prentuvillupúkinn svokallaði var óvenjurætinn í dáraskap sínum í millitexta úr þöglu myndinni Gullæðið eftir Chaplin sem var á þá leið að ákveðinn bær væri einn dæmigerðra gullgrafarabæja sem sprottið hefðu upp eins og gorkúlur, nema kúlur varð að kúkur.
Prentvillupúkinn getur farið slíkum hamförum að telja verði hann til ættkvíslar svokallaðra ærsladrauga en það gerðist einmitt í gömlu myndinni Snake Pit eða Snákagryfjan. Þar leikur Olivia de Havilland unga geðbilaða konu sem lokuð er inni á geðsjúkrahúsi við heldur ömurlegar aðstæður. Ein hjúkrunarkonan er eitt sinn að ræða ástand hennar sem verið hafði óvenjuslæmt í það sinn og segir: „Þetta hafa verið algjör randvæði hún er búin að vera garsneggjuð í allt kvöld.“
Eins verð ég alltaf ofurlítið örg þegar frægum persónum er ruglað saman líkt og gerðist í ævisögu Marilynar Monroe Gyðjan sem ég las um daginn. Í heildina er bókin óvenjuilla unnin, morandi í mál- og prentvillum, full af málfarsvillum og ótal setningar lúta enskri orðaröð fremur en íslenskri. Steininn tekur þó úr þegar það er fullyrt að Rainer fursti af Mónakó hafi hætt við að giftast Marilyn og ákveðið að giftast Gene Kelly í staðinn. Hvort furstinn hefur heillast svona af dansi hans og söng í myndinni Singin' in the Rain skal ósagt látið og engum getum að því leitt hvort Gene hefur hryggbrotið hann og það þá orðið til að hann ákvað að giftast Grace Kelly sem í það minnsta bar sama ættarnafn.
Þótt skemmtilegar villur af þessu tagi auðgi mannlífið má samt spyrja hvort þeir þýðendur sem slík mistök gera telji okkar skemmtun þess virði að reisa slík minnismerki um hroðvirkni sína.
2 Comments:
Æði, áttu fleiri pistla?
Sorrí græðgina :)
Jú, jú, Gurrí mín. Læt nokkra fara núna strax.
Skrifa ummæli
<< Home