föstudagur, desember 08, 2006

Veiðihundur í kanínuleit

Við Freyja fórum í göngu í gærkvöldi umhverfis Rauðavatn og grunur Gumma um kanínubyggð þar var staðfestur. Hún hvarf um leið og ég hleypti henni út úr bílnum eins og reyndar er venja hennar og siður á þessum slóðum. Ég kallaði og blístraði en enginn hundur birtist þar til allt í einu þaut framhjá mér dökkbrún kanína og fast á hæla hennar gulur hundur með sperrt skott, tunguna lafandi og andlit sem ljómaði af spenningi og gleði. Hvernig eltingaleiknum lyktaði veit ég ekki en þegar Freyja sneri aftur til mín var hún hrein og hvít sem mjöll á bringunni þannig að hún hefur að minnsta kosti ekki náð að fá sér bita af hrárri kanínu. Ég hélt að hún hefði fengið næga útrás við þetta og varð því undrandi þegar hún vakti mig tvisvar í nótt til að hleypa sér út. Í seinna skiptið sofnaði ég um leið og ég kom upp í rúm aftur þannig að húsið var opið í þrjár klukkustundir í nótt, frá klukkan fjögur til sjö og það hefði getað endað illa. Til allrar lukku gerðist ekkert annað en það að hörkufrost var í íbúðinni þegar ég vaknaði í morgun. Ég var svo þreytt að ég ætlaði aldrei að komast fram úr en drattaðist á endanum niður og gat gengið með Freyju í korter áður en ég varð að fara í vinnuna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home