sunnudagur, nóvember 26, 2006

Vetrarfegurð og orkuskot

Ég var eldhress í morgun og við Freyja rifum okkur út rétt fyrir tíu og gengum af stað. Fyrst ætlaði ég bara að labba út í Kópavogshöfn en veðrið var svo gott og sjórinn svo fallegur þar sem hann lá baðaður í vetrarsólinni að ég ákvað að fara hringinn fyrir Kársnesið. Þegar þangað var komið var enn of snemmt að sleppa þessari vetrarfegurð úr augsýn svo ég gekk út í Nauthólsvík. Þar var ég eiginlega búin að fá nóg og velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að hringja í Gunni og Andra og biðja þau um að sækja mig og keyra mig heim. Ég hætti við það því ég taldi óvíst hvort pilturinn minn væri almennilega vaknaður, enda var klukkan bara rétt um tólf. Við snerum því við og gengum heim á leið. Auðvitað varð að koma við í bakaríinu og á leið þangað var litið inn í Klukkuna og keyptir rafeyrnalokkar sem ég hef sent hýrt auga í glugganum núna í tvær vikur. Við Freyja gerðum því góðan túr. Eftir hádegið fór ég með Sigurveigu í Blómaval og valdi skraut á kransinn sem ég ætla að föndra hjá henni á morgun. Nú er ég nýkomin heim eftir kaffihúsastopp og læt mér líða vel í nýjum Joe Boxer náttfötum sem ég keypti mér. Já, þetta er nú algleymi ef algleymi er til.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home