mánudagur, nóvember 13, 2006

Vinnukonurnr og ástin

Við héldum matarboð hjónin á laugardagskvöldið og buðum Guðmundunum í ættinni hans Gumma í mat. Þeir eru þrír og allir skírðir í höfuðið á sama manninum. Umræðurnar við borðið snerust að nokkru leyti um ættfræði og í ljós komu þónokkrar sögur af vinnukonum sem orðið höfðu óléttar og verið útskúfað vegna snobbs. Ég held að í öllum ættum sé að finna dæmi um þetta. Bóndinn heldur við vinnukonuna og þegar óléttan kemst upp er stúlkunni vísað út á guð og gaddinn. Í minni ætt eru tvær slíkar sögur en þær fá ákaflega ólíkan endi. Sú fyrri gerðist á nítjándu öld. Þá varð forfaðir minn, Páll í Nesi við Loðmundarfjörð, ástfanginn af vinnukonu. Móðir hans taldi stúlkuna honum ekki samboðna þar sem Nes var höfuðból og bannaði honum að giftast henni. Foreldrar höfðu meiri völd á þessum árum en við getum ímyndað okkur þannig að úr varð að Páll hætti ekki bara við að kvænast barnsmóður sinni heldur sór hann af sér barnið hjá sýslumanni. Á leið út úr stofunni eftir eiðstafinn vék sér að honum bóndi úr sveitinni og sagði: Þarna sórstu þig til helvítis, Páll minn. Já, svaraði Páll, og það á ég upp hana móður mína. Ég veit svo ekkert hvað varð um vinnukonuna og barnið sem svo illa var komið fram við. Hins vegar var seinni sagan á þá leið að afabróðir minn eignaðist barn með vinnukonu sinni en konan hans tók að sér barnið og ól það upp með sínum eigin börnum og reyndist því alla tíð ágætlega. Já, mannlegt eðli er bæði svona og hinssegin.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Fyndið með alla þessa Guðmunda í Gummaætt og það eru líka svona Gummahrúgur í minni ætt. Bróðir pabba hét Guðmundur, dó um þrítugt (er pabbi Jónasar sýslumanns á Bolungarvík) en allir drengir fæddir um það leyti voru látnir heita eftir honum. Þeir eru líklega fjórir eða fimm, þ.á.m. Gummi bróðir.

10:20 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home