mánudagur, nóvember 13, 2006

Nafnarugl og hugmyndadeyfð

Gurrí mín var að kommentera við fyrri færslu um Guðmundana og þá datt mér í hug að það er ekki tekið út með sældinni að heita algengu nafni. Auður Haralds sagði eitthvað á þá leið í einni bóka sinna að sumir þjáðust alla ævi vegna hugmyndasneyðar foreldra sinna. Ég hef alltaf verið sammála henni og vorkennt þeim sem koma sér upp ótal kynslóðum Jóna Jónssona eða þegar tvö nöfn skiptast á, menn heita þá ýmist Jón Karlson eða Karl Jónsson. Ég veit að þetta háir mörgum fjölskyldum og hefur beinlínis staðið mörgum manninum fyrir þrifum í þroska og geðprýði. En aftur að algengum nöfnum. Guðmundur minn hefur mátt þola margt gegnum tíðina sökum nafns síns. Frægasta dæmið er örugglega árásarmálið. Hér kemur sagan af því. Við hjónin, þá reyndar sambýlisfólk, brugðum okkur af bæ til að halda upp á tvítugsafmæli hans Guðmundar og fréttum þegar heim kom að lögreglan hefði komið um kvöldið að leita hans. Við vorum mjög hissa á þessu, enda vissum við ekki til þess að Gummi hefði brotið nokkurn hlut af sér. Eftir hálfgerða andvökunótt fór hann niður á lögreglustöð og fékk að vita að hann væri ákærður fyrir að hafa brotið rúðu í hurð á íbúð á Skúlagötu 61. Tilgangur hans með rúðubrotinu var sá að opna sér leið inn til sextugrar konu sem þar bjó. Lögregluskýrslan tiltók ekki í hvaða tilgangi hann vildi komast inn til konunnar en lesendur geta bara beitt ímyndunaraflinu og getið í eyðurnar. Samkvæmt framburði vitna hét þessi kröftugi maður sem réðst inn í stigaganginn þeirra Guðmundur og bjó á Laugavegi 159. Þetta passaði við Gumma minn en mannlýsingin var fremur ólík honum nefnilega á þessa leið: Fremur lágvaxinn maður, þykkur um miðjuna og hárið heldur farið að þynnast. Þegar þessi saga gerist var Guðmundur spengilegur og kraftalegur ungur maður með allt sitt hár óskert. Málrekstur gegn honum var því látinn niðurfalla eftir viðtal við rannsóknarlögreglumann daginn eftir. Í annað sinn fékk Gummi ástarbréf frá Svíþjóð. Þar skrifaði ung kona að hann hefði reynst henni seingleymdur eftir nokkurra daga unaðsleg kynni og hún teldi sig því þurfa að láta á það reyna hvort ekki væri hægt að endurnýja kynnin. Það vildi Gumma til happs að hann hafði ekki átt leið um Svíþjóð á þeim tíma sem stúlkan tiltók annars hefði hann sennilega ekki kembt hærurnar eftir að konan hans komst í bréfið. Já, svonalöguðu geta jónar, gunnur og gummar alltaf búist við en steingerðar og kolgrímur sleppa blessunarlega við skammt af slíkum misskilningi.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

HAHAHAHAHAHAHAHAHA! Snilldarsögur. Takk fyrir að láta mig hlæja, ég þurfti á orku að halda í smákökubaksturinn!!! Fyrir kökublaðið sko.

5:18 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home