sunnudagur, nóvember 26, 2006

Vetrarmorgun með marr á grundum

Við Freyja fórum í annan langan göngutúr í morgun. Að þessu sinni gengum við út að skolphreinsistöðinni í Skerjafirði. Veðrið var jafnyndislegt í dag og í gær. Ég sá hóp af álftum á sundi á Fossvoginum. Tatú sögðu þær hátt og snjallt þegar við Freyja nálguðumst og ég vissi ekki hvort þær voru að segja Freyju að það væri tabú að stríða þeim eða mér að fá mér tattú. Ég býst ekki við að sú gáta verði ráðin á næstunni. Þetta voru tvö hvít álftapör og átta gráir fullvaxnir ungar. Æðarfuglarnir görguðu milt og rólega að þessu sinni var ekki úað á mig, enda var ég í göngubuxum, dúnúlpu og með fíniríis vettlinga. Freyja hitti fullt af hundum. Lítinn labradorhvolp sem heitir Krummi, stóran gulan labra sem heitir Bjartur og lítinn Prince Charles Chevalier sem heitir Máni. Hún var óskaplega glöð og lék við alla voffana. Á leiðinni heim sleppti ég henni smástund þar sem göngustígurinn var gersamlega mannlaus. Allt í einu hvarf hún ofan í fjöru og ég heyrði hraustlegt gæsagarg og mikinn vængjaslátt. Tvær gæsir þeyttust úr hlýjum, mjúkum bælum sínum í fjörunni og bókstaflega hlupu eftir sjónum eins langt út og þær komust. Gæsaskelfirinn stóð með lafandi tungu í fjörunni og horfði á eftir þeim. Ég get ekki sagt að hann hafi verið með skottið milli lappanna því enga iðrun var hægt að merkja á þessum ógnvaldi þvert á móti virtist hann ánægður með afleiðingar gerða sinna. Við komum við í bakaríinu á heimleiðinni þannig að ekki er víst að göngutúrinn skili mikilli rýrnun á kroppi mínum. En náttúran er yndisleg á svona svölum, kyrrum vetrarmorgnum. Það er varla hægt að hugsa sér neitt fallegra eða skemmtilegra en þetta. Freyja er alveg sammála þessu og segir að ekkert jafnist á við að velta sér upp úr snjónum og éta klaka í vetrargönguferðum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home