mánudagur, desember 11, 2006

Grýla er engri annarri lík

Ég rakst á þetta gamla viðtal þegar ég var að taka til í tölvunni minni. Það er tekið við Grýlu fyrir jólin 2000. Njótið vel.

Fáar íslenskar konur hafa verið jafn nátengdar jólunum eða gert álíka mikið til að aðrir Íslendingar njóti jólanna og Grýla. Hún er að vísu orðin háöldruð núna en elstu ritaðar heimildir um tilvist hennar eru úr Snorra-Eddu sem skrifuð var einhvern tíma á þrettándu öld. Á sautjándu öld kemur Grýla íslenskum húsmæðrum til hjálpar í jólaamstrinu því þá er farið að nota hana til að hræða óhlýðin börn til hlýðni en líkt og allar konur vita er það ómetanlegt þegar nauðsynlegt er að koma á friði í barnahópi að vísa til æðra valds sem muni tukta þá sem láta ekki af ósiðunum.

Er það satt Grýla mín að þú borðir börn?

„Ég er auðvitað af tröllakyni og við sláum yfirleitt ekki hendinni á móti feitum bita. En þær voru í einhverjum vandræðum með krakkana stelpurnar hérna í gamla daga. Æ, þú veist þetta með agann og allt það. Ég þekki það ekki. Sennilega hafa aldrei verið uppi á Íslandi betur siðuð börn en jólasveinarnir mínir, en ég er alls ekki ónæm fyrir þessum systrakærleika sem Rauðsokkurnar töluðu um mörgum öldum seinna svo ég lofaði þeim að nota mig til að hræða krakkaskammirnar. Hins vegar er að verða öld síðan ég hef elst við óþekka krakka. Maður er að verða svo skelfing slæmur af gigt svo ég hef látið mér nægja að hirða væna flís feitum sauðum sem flækst hafa um fjöllin mín í gegnum tíðina.“

En Grýla er ekki bara kona sem sýnir öðrum konum samkennd heldur er hún sjálf breysk eins og við allar. Hún er þrígift og það var ekki fyrr en hún hitti Leppalúða sinn að hún fann ástina. Fyrri menn hennar voru Gustur og Boli og hvorugur var nægilega hrikalegur fyrir hennar smekk. Lúði hefur enst í tæp þrjúhundruð ár sem verður að teljast allnokkuð gott ef tekið er tillit til síðustu talna um hjónaskilnaði.

Hjónabandið hefur ekki gengið áfallalaust því fyrir nokkrum öldum lagðist Grýla veik. Hún lá í rúminu og gat sig ekki hreyft. Leppalúði treysti sér ekki til að hugsa um börnin sem voru mörg, baldin, þverlynd og körg. Hann réði sér stúlku til aðstoðar sem Lúpa hét. Líkt og sumir aðrir karlmenn varð honum hált á svellinu gagnvart barnapíunni og átti með henni soninn Skrögg. Grýla komst skömmu síðar á fætur aftur og varð æfareið þegar hún komst að því sem gengið hafði á og rak Lúpu burt. Leppalúði reyndi að hamla gegn þessu en kona hans hefur jafnan verið sterkari persónuleiki svo það endaði með því að hann gaf þeim mæðginum eyju þar sem þau síðan bjuggu. Þetta hefur varla verið Grýlu auðveldur tími meðan maðurinn hennar var að koma hjákonu sinni og launsyni vel fyrir.

„Nei, svo sannarlega ekki. Lúði er sá af mönnunum mínum sem ég treysti best og þegar hann sveik mig var það sárt. Ég ákvað að fyrirgefa honum enda er það svo í góðum hjónaböndum að það má komast yfir mörg áföll. Stúlkukindina vildi ég hins vegar ekki sjá eftir þetta né ungann hennar.“

Um þig hefur verið mikið ort og ekki allt fallegt. Hvað finnst þér til dæmis um lýsingar eins og: „Grýla var tröllkerling, leið og ljót með ferlega hönd og haltan fót...“ og „...hafði hala fimmtán, í hverjum hala hundrað belgir, í hverjum belg börn tuttugu...“?

„Ég held þeir megi yrkja strákarnir. Að vísu verð ég að segja að mér sárnaði við Jóhannes úr Kötlum að hann skyldi tala um að ég væri leið, hvort ég er ljót er hins vegar smekksatriði. Ég veit að Gustur, Boli og Leppalúði, eiginmenn mínir, sýndu mér daglega að útlit mitt var þeim að skapi, enda á ég þrettán stráka með Lúða og þó nokkur börn af fyrri hjónaböndum. Þar á meðal Lepp, Skrepp, Láp og Skráp, Völustall og Bólu. Ég held að konur ættu að dæma útlit sitt út frá því hversu fjörugir karlarnir þeirra eru í bólinu frekar en einhverju sem skáldlegir strákar með hausinn í skýjunum yrkja. Jóhannes er þó að yrkja þvert um hug sinn þegar hann segir mig leiða. Hann hafði alltaf gaman af að heyra um mig og skemmti sér endalaust yfir sögum af mér þegar hann var barn svo mér sárnaði að hann skyldi nota þetta orð. Hann talar líka um ferlega hönd og mér þætti almennt ágætt að sjá þann sem héldist handnettur eftir átta hundruð alda samfellda búsetu á hálendi Íslands. Margur hefur nú fengið grófar vinnuhendur af minna erfiði.

Nú, eins þótti mér óþarft að taka fram í mannlýsingu kvæðisins að ég stingi örlítið við. Þeir hafa svo sem alltaf verið samir við sig við fordómana gagnvart fötluðum. Ég kann vel við þessar nýju hugmyndir um að líta eigi framhjá fötlun fólks og á manneskjuna sjálfa en mannskepnan er breysk og henni hættir til að horfa aðeins á yfirborðið og þá það sem augljósast er á yfirborðinu. Ef fólk vill gera eitthvert mál úr hölum mínum vil ég bara benda á að ekki er langt síðan að það þótti til mikilla lýta væri kvenfólk leggjalangt. Ég sé ekki betur en allar konur sem rata á síður blaðsins þíns og annarra blaða séu svo langleggjaðar að spurning er hvar fæturnir enda og hálsinn byrjar. Ég efast ekki um að einn góðan veðurdag á nýrri öld verði halar taldir til útlitskosta kvenna og því fleiri þeim mun betra.“

Er það sem mér heyrist að þú sért örlítið viðkvæm fyrir útliti þínu?

„Eru það ekki allar konur. Það tók mig auðvitað langan tíma að sættast við sjálfa mig og læra að eina spegilmyndin sem er þess virði að eltast við er sú sem birtist í augum elskunnar þinnar.“

En Grýla mín, Jóhannes úr Kötlum segir í kvæði sínu að þú hafir verið stundum mögur og stundum feit.

„Ég sagði aldrei að leiðin til þroska hefði verið auðveld og auðrötuð. Ég hljóp eftir þessum megrunarkúrum og var á trimmi um allar sveitir á eftir óþekktaröngum líkt og margar aðra konur þangað til ég áttaði mig og sættist við líkama minn eins og hann er. Ég er hvorki smávaxin né nett. Þið mennirnir kallið mig tröllkonu. Ég segi að það sé allt á eina bókina lært með þessa kvenímynd. Við pössum aldrei alveg inn í hana og þegar okkar „look“ kemst í tísku erum við búnar að missa blómann. Ég er heppnari en margar aðrar því ég veit að ég mun lifa og mitt „look“ er eitthvað sem þörf er fyrir um alla framtíð.“

Og við hinar vitum að myndir af Grýlu eru svo sannarlega ekki hættar að birtast þótt komið sé að aldahvörfum og hún eldri en aðrar fyrirsætur.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er hreinlega frábært viðtal. Má ég biðja um meira svona. Kv. GK.

9:32 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home